Starfsmenn rafmagns-, gas- og hitaveitna voru launahæstir í fyrra með 838 þúsund á mánuði, sé launatölum skipt niður eftir atvinnugreinum. Fast á hæla þeirra koma starfsmenn í fjármála- og tryggingageiranum með 828 þúsund.

Langtum mesti kynjamunurinn er innan þeirrar greinar, hvar karlar eru með 1.031 þúsund en konur 714 þúsund, en nokkuð dró þó saman með kynjunum þar milli ára. Ætla má að mikill kynjamunur þar skýrist að verulegu leyti af ólíkum störfum sem kynin gegna, enda minnkar munurinn talsvert þegar starfsmönnum innan greinarinnar er skipt niður á launþegahópa.

Minnsti launamunur kynjanna er hjá starfsmönnum vatnsveita, fráveita og við meðhöndlun úrgangs og afmengun, en þar eru karlar með 604 þúsund en konur 568 þúsund. Lægstu launin heilt yfir eru í rekstri gististaða og veitingarekstri. Miðgildi reglulegra heildarlauna þar var 446 þúsund krónur á mánuði í fyrra.

Séu einstakir launþegahópar skoðaðir eru stjórnendur í fjármála- og tryggingageiranum með hæstu launin, 1.733 þúsund krónur á mánuði. Þar á eftir koma stjórnendur hjá rafmagns-, gas- og hitaveitum með 1.460 þúsund, en þar eru sérfræðingar einnig hæst launaðir með slétta milljón á mánuði.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .