Heildarlaun voru hæst í fjármála- og vátryggingarstarfsemi á síðasta ári eða um 1,1 milljóna króna. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans .

Launin voru svipuð hjá starfsfólki hjá rafmagns- og hitaveitum þegar tillit er tekið til yfirvinnu en grunnlaunin eru aðeins lægri, rúmlega 800 þúsund krónur. Lægst voru launin í gisti- og veitingarekstri og í vatns- og fráveitum og meðhöndlun úrgangs, á bilinu 600 til 800 þúsund krónur þegar tekið er tillit til yfirvinnu.

Samsetning starfsstétta getur verið nokkuð ólík á milli greina og hefur það áhrif á launastig. Um helmingur starfa í gisti- og veitingarekstri er við ræstingar og afgreiðslu en um tveir af hverjum þremur sem starfa í fjármálageiranum eru sérfræðingar eða sérmenntaðir.

Grunnlaun launafólks í fullu starfi var að meðaltali 670 þúsund krónur á síðasta ári og heildarlaun um 794 þúsund krónur en viðbótin stafar einkum af yfirvinnu.

Grunnlaun hjá öllum starfsstéttum hækkaði að meðaltali um 6,6% milli áranna 2019 og 2020 sem er í samræmi við vísitölu launa sem hækkaði um 6,3%. Heildaraun hækkuðu mest í gisti- og veitingarekstri eða um 14%.

Laun hækkuðu minnst í verslun og í viðgerðum og í fjármála- og vátryggingarstarfsemi. Þá lækkuðu heildarlaun fólks í bygginga- og mannvirkjageiranum og hjá verslunar og viðgerðarfólki samhliða styttingu vinnuvikunnar.