Sigurður Ágústsson, forstjóri flugfélagsins Bláfugls, segir félagið ekki samkeppnishæft öðruvísi en að kjör kjarasamningsbundinna flugmanna þess lækki verulega. Kjörin séu með þeim hæstu á landinu og langt yfir því sem þekkist hjá samkeppnisaðilum fyrirtækisins.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hafi hins vegar sýnt óbilgirni og beitt áróðri og rangfærslum í yfirstandandi kjaraviðræðum. Hann telur FÍA vera að fórna störfum félagsmanna sinna hjá Bláfugli til að tryggja samningsstöðu sína gagnvart Icelandair, sem sé ósambærilegur rekstur með allt önnur þolmörk fyrir föst laun flugmanna.

Eðli rekstrar Bláfugls sé einfaldlega þannig að ekki sé unnt að fá fram sömu nýtingu flugmanna í farþegaflugi eins og hjá Icelandair. Þannig sé meðalfjöldi svokallaðra flugstunda flugmanna Bláfugls 21,5 á mánuði, á meðan hann er samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins um 70 hjá Icelandair í eðlilegu árferði.

Mikill taprekstur fyrir faraldurinn
Bláfugl skipti um eigendur og yfirstjórn í fyrravor, en félagið hefur verið í miklum taprekstri frá 2019, þegar það tapaði 160 milljónum króna, og þrátt fyrir miklar hagræðingar segir Sigurður félagið einnig hafa verið rekið með tapi í fyrra. „Kostnaður Bláfugls við félagsmenn FÍA, sem eru 23% starfsmanna en standa að baki 40% launakostnaðar var einfaldlega hvorki samkekeppnishæfur né sjálfbær.“

Því geti reksturinn ekki staðið undir sambærilegum kjörum flugmanna og hjá Icelandair. Kjör fastráðinna flugmanna félagsins þurfi að lækka um um það bil þriðjung til að félagið verði samkeppnishæft og geti haldið áfram rekstri hér á landi, en FÍA hefur hafnað öllum hugmyndum um kjaraskerðingar.

Kjaradeila Bláfugls og FÍA hefur nú staðið frá því í janúar síðastliðnum, þegar FÍA sleit viðræðum og vísaði til sáttasemjara. Verkfall þeirra 11 flugmanna FÍA sem hjá Bláfugli starfa hefur jafnframt staðið yfir frá því í febrúarbyrjun, en þeir eru allir á uppsagnarfresti eftir að hafa verið sagt upp störfum um áramótin.

Ekki hefur verið farið fram á vinnuframlag frá þeim frá uppsögninni að sögn Sigurðar, en þeir fengið full laun. Flugmenn með verktakasamning við Bláfugl hafa sinnt öllu flugi félagsins síðan.

Nánar er rætt við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .