Heildarfjöldi launþega var 195.000 í nóvember 2018, og fjölgaði um 2,3%, eða um 4.500 manns, frá sama mánuði árið áður. Í sama mánuði voru launagreiðendur 18.556 talsins. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Mest fjölgaði launþegum í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, um 7,4%, og voru 14.400 talsins. Þar á eftir kemur framleiðsla án fiskvinnslu með 3,7% aukningu, og heilbrigðis- og umönnunarþjónusta með 3,5% aukningu.

Starfsmönnum fækkaði í þremur flokkum, mest í sjávarútvegi um 1,8%, næstmest í tækni- og hugverkaiðnaði um 1,3%, og loks fækkaði starfsmönnum í smávöruverslun um 0,2%.