Seðlabanki Íslands telur fjármálakerfið standa traustum fótum en lausafjárstaða viðskiptabankanna þriggja hefur styrkst það sem af er ári. Mikil óvissa ríkir þó um raunvirði útlánasafns fjármálafyrirtækja.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýbirtu fjármálastöðuleikariti Seðlabanka Íslands sem kemur út tvisvar á ári. Ritið er nokkuð yfirgripsmikið þar sem meðal annars er farið yfir stöðu bankanna og fjármálakerfisins í heild.

Fjármálakerfið stendur traustum fótum

Að mati Seðlabankans stendur fjármálakerfið hér á landi traustum fótum þrátt fyrir útbreiðslu COVID-19-farsóttarinnar. Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sterk en lausafjárstaða bankanna hefur styrkst það sem af er ári, bæði í heild og í íslenskum krónum.

Seðlabankinn hefur gripið til aðgerða sem hafa styrkt lausafjárstöðu og lausafjáraðgengi bankanna. Auk þess hafa minni útlán og aukinn sparnaður styrkt lausafjárstöðu þeirra um sinn. Bankarnir munu að öllum líkindum þurfa að ganga á lausafjárforða sinn á næstu mánuðum meðal annars vegna aukinna vanskila útlána og útlánavaxtar.

Mikil óvissa ríkir um raunvirði útlánasafns fjármálafyrirtækja. Sviðsmyndagreining Seðlabankans bendir samt til þess að eiginfjárstaða þeirra standist álagið vel, enda sé eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra vel umfram kröfur Seðlabankans.

Um helmingur útlána viðskiptabankanna til ferðaþjónustu hefur fengið greiðsluhlé en útlán til ferðaþjónustu mælast nú tæplega 10% af heildarútlánum bankanna til viðskiptavina. Útlán viðskiptabankanna til sjávargeirans námu í lok apríl síðastliðinn rúmlega 12% af útlánum þeirra til viðskiptavina.

Ársvöxtur útlána stóru viðskiptabankanna til ferðaþjónustu var rúmlega 5% í lok mars síðastliðinn, samanborið við tæplega 9% vöxt ári áður. Vöxturinn síðastliðinn 12 mánuði skýrist að stærstum hluta af útlánum til hótela og hótelbygginga. Niðurfærslur á lánum til greinarinnar hafa aukist síðan í ársbyrjun 2019 og standa nú í 5,4% af kröfuvirði útlána.