Ósk Sigurðardóttir iðjuþjálfi, sem stendur að TravAble ásamt Hannesi Péturssyni hugbúnaðarsérfræðingi, segir markmiðið með smáforritinu, eða appinu, vera að auka félagslega virkni hreyfihamlaðra til að draga úr einangrun og þar með álagi á og þörf fyrir félags- og læknisþjónustu.

Fyrirtækið, sem nú þegar býður upp á fyrstu útgáfu forritsins frítt á vefverslunum bæði Apple og Google, fékk á dögunum Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands.

„Hindranir í vegi hreyfihamlaðra eru víða vandamál og það skortir í dag handhægar upplýsingar um hvar aðgengilega þjónustu er að finna og hvernig aðgengi er að mannvirkjum,“ segir Ósk en nýja snjallsímaforritið TravAble á að leysa þennan vanda.

„Við vildum að hægt væri að sjá hvort það væru bílastæði fyrir fatlaða í nágrenninu, hvort það væru tröppur, rampur eða lyfta á staðnum, hvort til staðar væri salerni fyrir fatlaða og hvort snúningspunkturinn væri í lagi, það er hvort það væri pláss inni í húsnæðinu sem þjónustan er veitt í og svo framvegis. Gögn benda til þess að um 750 þúsund hjólastólanotendur séu á Norðurlöndunum, en hverjum einstaklingi tengjast svo margir, eins og nærfjölskyldan, vinir og aðstoðarfólk. Markhópurinn er þannig skilgreindur er því allt að sex milljónir. Ætla má að 13-21% í heiminum glími við einhvers konar fötlun og öldruðum fer fjölgandi.“

Hugmyndina segir Ósk hafa lengi blundað í sér, en svo þegar hún fór í mastersnám í verkefnastjórnun í HR fékk hún það verkefni ásamt þremur öðrum að búa til smáforrit.

„Hannes Pétursson, meðeigandi minn í dag, var kennarinn okkar,“ segir Ósk en hún segir verkefnið síðan hafa legið í skúffu þangað til hún heyrði um norræna frumkvöðlasamkeppni um lausnir til sjálfstæðara lífs sem norrænu höfuðborgirnar stóðu meðal annars að.

„Ég dustaði rykið af verkefninu, hóaði í hópinn og við sendum verkefnið inn. Af einhverjum 450 hugmyndum þá komumst við inn í 75 liða keppni, eða viðskiptahraðal. Hann stóð yfir í 18 mánuði, sem var mjög skemmtilegt tímabil, en við fórum á þessum tíma til Kaupmannahafnar, Helsinki, Osló og Stokkhólms og unnum áfram með hugmyndina og þróuðum hana. Við komumst alla leið í undanúrslitin í hópi 24 fyrirtækja og vorum tilnefnd til verðlauna vegna norrænnar samvinnu.“

Hugmyndin lenti svo í þriðja sæti í alþjóðlegri frumkvöðlakeppni í Amsterdam á vegum JCI í nóvember. Hingað til hefur verkefnið að mestu verið fjármagnað með styrkjum, enda segir Ósk verkefnið fyrst og fremst hafa samfélagslega skírskotun og það geti ekki orðið að veruleika án samstillts átaks, styrkja og aðstoðar.

„Aðalmarkmið samfélagslegra frumkvöðla eins og okkar er fyrst og fremst að leysa vandamál sem hinu opinbera eða fyrirtækjum hefur ekki tekist að leysa eða séð hag í að leysa. Hagnaður er því ekki það sem knýr fyrirtækið áfram þó svo að það sé klárlega markmið okkar að fyrirtækið verði sjálfbært og skili hagnaði. Tekjumódel fyrirtækisins verður að bjóða upp á að kaupa þá þjónustu sem hentar þörfum notendans eins og bókanir í hótel, skipulagðar ferðir eða jafnvel veitingastaði. Við fáum hlutfall af þeim sölutekjum til okkar,“ segir Ósk.

„Þeir sem hafa verið að prófa svipaða þjónustu eru oft með mjög staðbundnar lausnir sem ekki hafa nýtt sér gagnagrunna stærri þjónustuveitna. Það höfum við leyst og til viðbótar skrá notendur okkar inn upplýsingar, við erum því mun fljótari að safna gögnum. Lausnin er hugsuð fyrir notkun um allan heim.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .