Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir í samtali við Fréttablaðið að Pósturinn sé tilbúinn með örugga lausn fyrir dreifingu á áfengi ef lagaramminn utan um netverslun með áfengi breytist á næsta ári. Hann segir að þegar Pósturinn hafi frétt af þessum áformum hafi verið farið af stað og teiknuð upp lausn. Í henni felist að Pósturinn geti dreift áfengi í gegnum dreifikerfi sitt með skjótum hætti, séð til þess að viðtakandinn sé sá sami og pantaði, og gengið úr skugga að viðtakandinn sé yfir aldurstakmarkinu.

Dómsmálaráðherrann Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hyggst í mars á næsta ári leggja frumvarp fyrir Alþingi. Umrætt frumvarp heimilar kaup á áfengi í netverslunum á Íslandi, án þess að Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafi aðkomu. Í lögunum eins og þau eru í dag er fólki einungis heimilt að kaupa áfengi í erlendum netverslunum, en þá þarf að greiða virðisaukaskatt og áfengisgjald.