„Í kjölfar umfjöllunar sjónvarpsþáttarins Kveiks í ríkissjónvarpinu vilja Samtök iðnaðarins koma því á framfæri að samtökin hafa alla tíð lagt áherslu á að atvinnurekendur innan þeirra raða og utan fari að lögum og reglum vinnumarkaðarins," þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

„Stór hluti af vinnuaflsþörf núverandi efnahagsuppsveiflu hefur verið mætt með erlendu vinnuafli. Erlendir ríkisborgarar voru að jafnaði 18,6% starfandi fólks á öðrum ársfjórðungi þessa árs og voru samtals starfandi innflytjendur að jafnaði 37.388 á þeim tíma," segir í tilkynningunni.

Frá því að efnahagsuppsveiflan hófst árið 2011 hefur fjöldi starfandi innflytjenda meira en tvöfaldast, farið úr því að vera nær 16 þúsund í tæplega 33 þúsund. Í heild fjölgaði starfandi í hagkerfinu um ríflega 33 þúsund á árabilinu 2011 til 2017. Tæplega 51% þeirra voru innflytjendur eða tæplega 17 þúsund. Fjölgun starfandi innflytjenda hefur því mætt vinnuaflsþörf hagvaxtarins að stórum hluta og þar með lagt mikið af mörkum til aukinnar verðmætasköpunar í samfélaginu.

„Að undanförnu hefur verið hér á landi eitt mesta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar. Hafa þarf í huga að ef ekki væri hægt að fá hingað til lands erlent vinnuafl náum við ekki að halda uppi jafn miklum hagvexti. Því fylgir ábyrgð að fá hingað til lands starfsmenn til vinnu, ábyrgð sem meginþorri vinnuveitenda stendur undir en því miður eru þeir til sem rísa ekki undir þeirri ábyrgð. Samtök iðnaðarins munu í samstarfi við stjórnvöld og aðra aðila á vinnumarkaði leggja sitt af mörkum til að stöðva slíka framkomu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.