Saksóknarar í New York fylki í Bandaríkjunum hafa lagt fram ákæru gegn The Weinstein Company en ákæran snýr að því að fyrirtækinu hafi mistekist að vernda starfsfólk fyrir gjörðum Harvey Weinstein að því er BBC greinir frá.

Harvey Weinstein hefur verið ásakaður um tugi kynferðisbrota þar með talið nauðganir á kvenkyns starfsmönnum. Þá segir einnig í ákærunni að Harvey hafi hótað að myrða starfsmenn sína.

Lögmaður Harvey Weinstein sagði að sanngjörn rannsókn myndi leiða í ljós að margar af ásökununum ættu ekki við rök að styðjast.

Fyrirtækið hefur verið í söluferli en talið er að ákæran geti spillt fyrir viðræðum við fjárfesta.