Rútufyrirtækið Allrahanda GL (AGL), sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Grayline hér á landi, hefur lagt fram beiðni um mánaðarframlengingu á greiðslustöðvun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur (HR), en félagið hafði verið í greiðslustöðvun frá 6. apríl.

Félagið fundaði með kröfuhöfum 22. apríl síðastliðinn og lagði fram beiðnina 26. apríl. „Það er verið að teikna upp fjárhagslega endurskipulagningu á félaginu. Fundurinn var vel sóttur og þar voru engin mótmæli við því að við framlengjum greiðslustöðvun um einn mánuð til viðbótar," sagði Þórir Garðarsson, stjórnarformaður AGL. Hann bætir við að frumvarp til nauðasamnings verði lagt fram á næstu vikum

Í glærukynningu, sem kynnt var kröfuhöfum Allrahanda GL og Viðskiptablaðið hefur undir höndunum, kemur fram að hluthafar AGL og aðrir hugsanlegir fjárfestar ætli að leggja fram nýtt fé upp á 300 milljónir króna til að fjármagna uppgjör á fyrirhuguðum nauðasamningi.

Neikvætt eigið fé í faraldrinum

Félagið var rekið með 699 milljóna tapi árið 2020, en 404 milljóna tapi árið áður. Reksturinn hefur verið þungur á síðastliðnum árum. Þannig skilaði félagið síðast hagnaði árið 2015.

Tekjur félagsins drógust jafnt og þétt saman á árunum fyrir faraldurinn. Þær námu 4 milljörðum árið 2017 en tæpum 2,2 milljörðum króna árið 2019 en um 800 milljónum faraldursárið 2020. Eigið fé var neikvætt í árslok 2020 um 241 milljón króna og skuldaði félagið um 2 milljarða.

Framtakssjóðurinn Akur, sem er í rekstri hjá Íslandssjóðum og er að mestu í eigu lífeyrissjóða er stærsti hluthafi AGL með 49% hlut. Þá eiga Sigurdór Sigurðsson framkvæmdastjóri AGL, og Þórir Garðarsson, stjórnarformaður AGL, 25,5% hlut hvor um sig.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .