Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur meðal annars til að ríkið muni bjóða til sölu allt að 35% hlut í Íslandsbanka nú á vormánuðum. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.

Fyrir jól samþykkti stjórn Bankasýslu ríkisins að leggja til að selja hlut í Íslandsbanka strax á fyrri hluta þessa árs. Af því tilefni óskaði fjármála- og efnahagsráðherra eftir því að Seðlabanki Íslands og tvær fastanefndir þingsins, það er efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd, lætu uppi álit sitt á sölunni. Frestur til að skila greinargerð rennur út í dag.

Heimildir blaðsins herma að nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd hafi ekki verið einróma um niðurstöðuna. Meirihluti náðist í nefndinni en nokkur minnihlutaálit muni einnig skila sér. Sum minnihlutaálitanna séu þó að stórum hluta efnislega í samræmi við niðurstöðu meirihlutans.

Meðal þess sem áréttað er í greinargerð meirihlutans, samkvæmt heimildum blaðsins, er mikilvægi þess að með skráningu bankans á markað og útboði hluta verði nauðsynlegt að huga að samkeppni, leggja grunn að dreifðu eignarhaldi og fjölbreytileika í eigendahópi.

Nefndin gefur þau tilmæli að ákveðnir lágmarks- og hámarksþröskuldar verði á stærð hlutarins sem boðinn verður til sölu. Er bilið fjórðungs til 35% hlutur nefndur í því samhengi. Þá er lagt til að sett verði hámark á þann hlut sem einstakir þátttakendur í útboðinu geti skráð sig fyrir og mælst til þess að það verði á bilinu 2,5-3% af heildarhlutum í bankanum. Enn fremur er mælst til þess að tryggt verði að sendi aðili inn tilboð undir ákveðinni krónutölu, ein milljón króna var nefnd í því samhengi, þá muni tilboðið ekki skerðast komi til þess að umframeftirspurn verði í útboðinu.

Rétt er að taka fram að hér eru á ferð tilmæli sem ekki hafa verið meitluð í stein og mun hægt að víkja frá þeim að einhverju leyti síðar í ferlinu.