Jeff Bezos, forstjóri Amazon, hefur heitið að leggja til 10 milljarða dollara í baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Bezos, sem er ríkasti maður heims, segir að peningarnir muni fjármagna verkefni vísindamanna, aktívista og annarra hópa sem vinna að lausn vandamálsins. BBC greinir frá þessu.

Að sögn Bezos mun sjóðurinn sem heldur utan um fjármunina hefja að greiða út styrki næsta sumar. Auðæfi hans eru metin á rúmlega 130 milljarða dollara, svo alls mun hann leggja til 8% af auðæfum sínum í þágu loftslagsmála.