„Þessi niðurstaða kemur verulega á óvart,“ segir Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður F fasteignafélags ehf., um niðurstöðu Hæstaréttar í máli félagsins gegn þrotabúi Saga Capital. Þar var kröfum félagsins, um að 40 milljóna króna þóknun slitastjórnar til sjálfrar sín yrði ógilt, vísað frá dómi.

Við upphaf slitameðferðar Saga Capital tilkynnti þriggja manna slitastjórn að hún myndi greiða sér þóknun smám saman en áskildi sér að auki rétt til að taka sér þóknun með tilliti til hagsmuna sem í húfi væru við sölu eigna eða lyktir mála. Einnig var tilkynnt að til kröfuhafafunda yrði boðað með tölvubréfi.

Í apríl 2016, eftir að slitastjórnin hafði sigur í máli gegn Hildu ehf., sem síðar rann inn í F fasteignafélag, ákvað stjórnin að greiða sér 40 milljónir króna í þóknun. Ekki var boðað til þess fundar með tölvubréfi heldur tilkynning um hann birt í Lögbirtingablaðinu. Engir frekari fundir fóru fram fyrr en Saga Capital var tekið til þrotaskipta að beiðni slitastjórnar í upphafi síðasta árs.

Hæstiréttur hafnaði því að ógilda þóknunina þar sem samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti bæri að höfða riftunarmál til þess. Slíkt er vanalega á forræði skiptastjóra en skiptastjórar þrotabúsins eru tveir talsins og mynduðu áður, auk þriðja manns, slitastjórn félagsins. Því þyrftu þeir að höfða riftunarmál til að rifta greiðslum til sín.

„Ég tel algjörlega útilokað að skiptastjóri muni höfða riftunarmál gegn sjálfum sér,“ segir Guðmundur Ingvi. Umbjóðandi hans sé nú að skoða réttarstöðu sína. Gjaldþrotaskiptalögin hafa að geyma heimildir fyrir kröfuhafa til að höfða riftunarmál en sennilega séu frestir til slíks liðnir. Þá sé einnig til skoðunar að höfða skaðabótamál fyrir hönd þrotabúsins á hendur slitastjórninni. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin á þessu stigi.

„Þegar Hæstiréttur féllst á kæruleyfi þrotabús Saga Capital þá var tekið fram í málskotsákvörðuninni að aðeins ætti að fjalla um boðunina á kröfuhafafundinn. Það var höfð uppi frávísunarkrafa af hálfu Saga Capital í héraði og í Landsrétti en í Hæstarétti átti aðeins að fjalla um boðunina. Málflutningurinn snerist ekki um atriðið sem réð úrslitum og engar spurningar voru um það,“ segir Guðmundur Ingvi.

„Niðurstaðan vekur furðu. Þarna er lagður rosalegur steinn í götu kröfuhafa. Við teljum þessa þóknun ólögmæta og þessi túlkun gerir kröfuhöfum erfitt að sækja rétt sinn. Reglur gjaldþrotaskiptalaga um heimildir til að mótmæla þóknun eru settar til hagsbóta kröfuhafa en ekki skiptastjóra,“ segir Guðmundur Ingvi.

Niðurstaðan virðist fela í sér að nauðsynlegt hefði verið að gera athugasemdir við þóknunina á meðan félagið var enn í slitameðferð. Slíkt hefði verið afar erfitt að mati lögmannsins.

„Það er verið að láta kröfuhafa bera hallann af því að slitastjórnin hafi ekki boðað til fundar með réttum hætti og með því að senda félagið í þrotaskipti eru athugasemdir við kostnaðinn útilokaðar. Þessi niðurstaða kemur mjög á óvart,“ segir Guðmundur Ingvi að lokum.