Svokölluð valkostagreining um leiðarval fyrir Vestfjarðarveg um Gufudalssveit í Reykhólahreppi sem verkfræðistofan Viaplan hefur gert segir að leið í gegnum þorpið á Reykhólum sem jafnframt þveri mynni Þorskafjarðar sé vænlegasti kosturinn.

Rökstyður Lilja Guðríður Karlsdóttir hjá Viaplan leiðina með því að hún sé tæknilega, skipulagslega, hagrænt og félagslega betri en aðrar leiðir til að leysa af hinn erfiða farartálma Hjallaháls í Þorskafirði að því er Morgunblaðið segir frá.

Hugmyndir að nýjum vegi um Þorskafjörð.
Hugmyndir að nýjum vegi um Þorskafjörð.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Breytir ekki afstöðu Vegagerðarinnar

Vegagerðin segir þvert á móti enn að leið sem liggur eftir endilangri ósnortinni landræmunni þar sem Teigsskógur liggur milli fjalls og fjöru vera hagkvæmustu leiðina.

Segir Vegagerðin að við uppbyggingu stofnvegakerfis um sunnanverða Vestfirði sé svokölluð Þ-H leið sem liggur eftir endilöngum landnámskóginum sú sem komi best út við samanburð á öryggi, greiðfærni, styttingu leiða auk áðurnefndrar hagkvæmni.

„Valkostagreining Viaplans frá 12. desember breytir ekki þeirri niðurstöðu,“ segir í fréttatilkynningu stofnunarinnar, en leiðin sem Vegagerðin vill að sé farinn er sú sem lengst er komin í skipulagsferli.

„Fyrirsjáanlegt er að umferð um Vestfjarðaveg í Gufudalssveit muni aukast umtalsvert á næstu árum. Dýrafjarðargöng verða opnuð árið 2020 og undirbúningur er hafinn að nýjum heilsársvegi um Dynjandisheiði. Ásamt vegabótum í Gufudalssveit mun því vegalengd milli Reykjavíkur og Ísafjarðar styttast um 50 km. (Dýrafjarðargöng 27,3 km, Dynjandisheiði 2-3 km, leið Þ-H 21,6 km).“

Vegur í gegnum þorpið betri fyrir byggðina

Viðurkennir Vegagerðin þó einn af punktum Viaplan, sem er sú að leið um Reykhóla hafi ákveðna kosti fyrir  byggðasjónarmið sveitarinnar sem tengi hana betur bæði til vesturs og verði byggðin þar með nær Vestfjarðarvegi „það hefur hins vegar ekki verið megin markmið fyrirhugaðra framkvæmda“.

Viaplan byggir greiningu sína á tölum frá hinni norsku verkfræðistofu Multiconsult um stofnkostnað við Reykhólaleiðina en þeir reiknuðu með að sú leið kostaði 6,9 milljarða króna meðan vegagerðin segi leið um Teigsskóg kosta 6,5 milljarða.

Vegagerðin sagði hins vegar að leiðin um Reykhóla væri mun dýrari eða yfir 11 milljarða króna og reiknaði þar með annars konar brú en stöplabrúnni sem Multiconsult gerði ráð fyrir, á öðrum stað og að byggja þyrfti undir Reykhólaveginn, sem Viaplan segir að gera þurfi hvort eð er, hvor leiðin sem verði farin, en það þurfi ekki að gera strax.

Minni rekstrarkostnaður en eilítið lengra til Reykjavíkur frá Patreksfirði

Viaplan telur hins vegar á móti að rekstrarkostnaðurinn verði minni á Reykhólaleiðinni, sem og hún dragi úr skólaakstri barna í Gufudalssveit. Segir Lilja Guðríður það vera þess virði að skoða leiðina nánar ef líkur séu á að hún skapi meiri sátt í samfélaginu í Reykhólahreppi en hinir leiðarvalkostirnir.

Vegagerðin segir vegalengdina milli Reykhóla og Patreksfjarðar styttast um 40-45 kílómetra ef Þorskafjörðurinn yrði þveraður, en á móti kæmi að leiðin frá Reykjavík og Vesturlandi til Patreksfjarðar og Ísafjarðar um suðurfirðina yrði um 4-5 kílómetrum lengri en ef farið yrði um Teigsskóg.

Jafnframt segir Vegagerðin veginn um Reykhólasveit ekki uppfylla kröfur um stofnvegi, og sé því öfugt við það sem segi í valkostagreiningunni ekki fullnægjandi sem flutningsleið og stofnvegur.

„Hann er mjór, með kröppum beygjum og hæðum, lagfæra þarf hliðarsvæði og setja upp vegrið til að auka umferðaröryggi,“ segir Vegagerðin og segir nauðsynlegt að gera ráð fyrir kostnaði við þetta við framkvæmdina.

„Kostnaðarmat Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir að leið A3 sé um 4 milljörðum króna dýrari en leið Þ-H.[...] Vegagerðin hefur lagt til við Reykhólahrepp að að nýr Vestfjarðavegur verði lagður samkvæmt leið Þ-H og er það gert að vel athuguðu máli. Sú framkvæmd er fullfjármögnuð í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem er til umfjöllunar á Alþingi.“

Segja Gufudalsleið tefja en lofa að virða afstöðu sveitarstjórnar

Segir Vegagerðin að ef sveitarstjórn Reykhólahrepps velji aðra leið sé óvíst hvenær framkvæmdir geti hafist því ekki séu þær fullfjármagnaðar, en sveitarstjórn áformar að kynna íbúum skýrsluna á þriðjudag í næstu viku ásamt fulltrúum Vegagerðarinnar.

Reiknar Tryggvi Harðarson sveitarstjóri Reykhólahrepps  með að ákvörðun um leiðarval verði tekin á fyrsta fundi sveitarstjórnar á nýju ári, en hann segir það hafa komið sér á óvart hversu afgerandi niðurstaða skýrslu Viaplan var.

Vegagerðin segir aftur á móti að hún leggi „áherslu á að sama hvaða ákvörðun sveitarstjórn Reykhólahrepps tekur að það mun ekki standa á Vegagerðinni að vinna að vegabótum á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit.“