Landslagið í heilbrigðisgeiranum hefur breyst mjög hratt undanfarin ár. Það hefur verið ákveðin töf á stafrænni væðingu innan heilbrigðiskerfisins ef þú berð það saman við aðra geira. Við teljum okkur vera vel í stakk búin sem fyrirtæki að leiða ákveðna framþróun í heilbrigðistækni. Með þessari fjárfestingu þá er markmiðið að gefa meira í,“ segir Sæmundur Oddsson, annar stofnenda og framkvæmdastjóri lækninga og rannsókna Sidekick Health sem lauk á dögunum 7 milljarða króna fjármögnun . „Vaxtartækifærin eru gífurleg. Þessi fjárfesting endurspeglar það.“

Sidekick, sem var stofnað árið 2014, hefur stækkað ört á síðustu misserum og starfsmenn þess eru orðnir um 150 talsins, þar af starfa um 130 manns í höfuðstöðvum félagsins á Íslandi. Til samanburðar þá voru starfsmenn um 30 fyrir tveimur árum. Fyrirtækið hefur á skömmum tíma opnað skrifstofur í Berlín, Boston og nú síðast í Stokkhólmi.

„Við sjáum fyrir okkur að þurfa að allt að því tvöfalda starfsmannafjöldann á komandi misserum til að mæta aukinni eftirspurn eftir okkar nálgun,“ segir Sæmundur. Hann segir að það hafi gengið vonum frama að vinna fólk sem deilir sýn Sidekick. „Okkar frábæra teymi hefur náð að skipa sér þann sess að vera leiðandi á heimsvísu í þróun stafrænna heilbrigðismeðferða sem bæta útkomu sjúklinga ásamt líðan og lífsgæði þeirra.“

Klæðskerasniðnar meðferðir

Sidekick þróar heilbrigðismeðferðir, sem er miðlað í gegnum fjarheilbrigðiskerfi félagins, til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, bólgusjúkdóma og krabbamein. Fyrirtækið stefnir að því að þróa meðferðir fyrir fleiri sjúkdóma og sjúkdómaflokka auk þess að sinna sjúklingum með fleiri en eina sjúkdómsgreiningu.

„Það er oft viss tilhneiging í heilbrigðiskerfinu að vinna í ákveðnum sílóum Það leiðir til þess að sjúklingar sem kljást við mörg vandamál þurfa að leita á marga staði. Okkur hefur tekist að þróa áfram og nýta tæknina til sniðlækninga (e. personalized medicine) sem snúa að því að mæta sjúklingnum þar sem hann er. Sjúklingar eru með mismunandi sjúkdóma sem blandast saman á ólíkan hátt hafa ólíkar þarfir. Það hefur skort í heilbrigðiskerfið að klæðskerasníða meðferðir til að ná hámarksárangri,“ segir Sæmundur sem hefur starfað sem sérfræðilæknir á stórum háskólasjúkrahúsum erlendis.

Sem dæmi um mikilvægi heildrænnar nálgunar á meðferðirnar nefnir Sæmundur sjúkdóma sem tengjast. Fólk með hjarta- og æðasjúkdóma glímir oft við háþrýsting og sykursýki af tegund 2. Hann bætir einnig við að Sidekick leiti eftir samlegðaráhrifum með hefðbundum heilbrigðismeðferðum og segir að lausnir fyrirtækisins hafi t.d. fallið vel að lyfja- og geislameðferðum.

Sidekick er í dag með 18 meðferðir í þróun og rannsóknum. Þar af hefur fyrirtækið náð samningum um 14 þeirra við stóra aðila úti í heimi að sögn Sæmundar. Markmiðið sé að fyrir árslok 2026 muni fyrirtækið bjóða upp á meðferðir við allt að 40 sjúkdómum.

Sjá einnig: Vöktun í stað bráðaþjónustu

„Það eru vissar hindranir innan heilbrigðiskerfa vesturlanda að nálgast hlutina heildrænt. Það er til mikils að vinna að bæta lífstíl og hvetja sjúklinga til að sinna mataræði, hreyfingu, streitustjórnun, og meðferðaheldni betur. Það gefst ekki mikill tími til þess á sjúkrahúsum. Það er mikill meðbyr í segl okkar frá heilbrigðiskerfum og -starfsfólki því allir sjá þetta rými sem er til að bæta útkomur sjúklinga með þessum aðferðum.“

Þriðja kynslóð heilbrigðismeðferðar

Spurður nánar um vaxtartækifærin á sviði stafrænna heilbrigðislausna, þá setur Sæmundur þær í sögulegt samhengi. Læknar séu búnir að ávísa hefðbundnum lyfjum til sjúklinga í einhverju formi í meira en 150 ár. Fyrsta kynslóð hefðbundinna lyfja hafi búið til grundvöll fyrir fyrirtæki á borð við Pfizer og Bayer. Líftæknilyfin myndi aðra kynslóð heilbrigðismeðferðar en út frá þeirri tækni hafi sprottið fyrirtæki á borð við Amgen og Biogen.

„Okkar sýn er að stafræn meðferðarúrræði verði þriðja kynslóðin. Því er spáð að innan fárra ára þá verði stafrænar lausnir fastur liður í meðferð flestra sjúkdóma því ávinningurinn er svo augljós og kraftmikill á öllum sviðum.“

Þótt mikil þróun hafi átt sér stað við gerð stafrænna heilbrigðismeðferða á síðustu 4-5 árum sé enn gífurlegt rými til að bæta útkomur sjúklinga og verkferla innan heilbrigðiskerfa að sögn Sæmundar. Hann segir Sidekick í fararbroddi á markaðnum en viðurkennir að samkeppnin sé hörð.

„Við höfum skapað okkur sérstöðu, ekki síst með að leggja höfuðáherslu á klínísku hliðina ólíkt mörgum öðrum samkeppnisaðilum okkar sem nálgast viðfangsefnið fyrst út frá tæknihliðinni. Við horfum fyrst til sjúklinganna og sníðum lausnir eftir þeirra þörfum.“

Samstarf við risafyrirtæki

Sidekick hefur á undanförnum þremur árum gert samstarfssamninga við þrjú af fimm stærstu lyfjafyrirtækjum heims; Pfizer, Eli Lilly og Bayer. Auk þess hóf fyrirtækið á síðasta ári samstarf við sjúkratryggingafyrirtækið Anthem. Sæmundur segir að með þessu komist Sidekick í færi við gífurlegan fjölda sjúklinga og nefnir sem dæmi að Anthem samningurinn veiti aðgang að 45 milljónum manna.

„Það hefur mikil tækifæri í för með sér, ekki bara í tekjum heldur líka að þróa tæknina áfram, sækja gögn og bæta meðferðirnar á stórum skala,“ segir Sæmundur. Hann bætir við að í eðli sínu liggi hagsmunir fyrirtækjanna vel saman en sjúkratryggingafyrirtæki vilja eðli málsins samkvæmt halda sjúklingum heilbrigðum og koma í veg fyrir óþarfa innlagnir og versnanir á sjúkdómum.

„Við hjá Sidekick erum sammála um að tækifærið er gríðarstórt en þetta er líka kapphlaup. Við erum vissulega með samninga sem eru milljarða virði og fela í sér mikil vaxtartækifæri. Það gerist hins vegar ekkert að sjálfu sér - þeir fiska sem róa.“

Viðtalið við Sæmund má finna í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .