Gengi hlutabréfa Íslandsbanka hækkaði mest í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði Kauphallar Nasdaq á Íslandi. Hækkaði gengi bankans um 3,34% í viðskiptum dagsins, en í morgun sendi bankinn frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að samkvæmt drögum að uppgjöri hafi hagnaður bankans numið 7,6 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi .

Er það töluvert umfram markmið bankans og spár greiningaraðila sem höfðu reiknað með að hagnaður yrði á bilinu 2,9-6,2 milljarðar á þriðja ársfjórðungi.

Gengi hlutabréfa Marels hækkaði næstmest, eða um 2,11% í tæplega 1,1 milljarða viðskiptum. Gengi VÍS hækkaði um 1,03% en gengi Sjóvá, Regins, Haga, Eimskips, Eikar og Arion banka hækkaði um innan við 1%.

Gengi hlutabréfa Origo lækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 2,01% í 79 milljóna króna viðskiptum. Fast á hæla upplýsingatæknifyrirtækisins fylgdi flugfélagið Icelandair, en gengi bréfa félagsins lækkaði um 1,83% í 109 milljóna króna veltu.

Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um 1,06% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 3.327,42 stigum.