„Til framtíðar er þetta augljósasta leiðin til þess að halda áfram að auka lífsgæði á Íslandi almennt séð. Það er að reyna að sækja fram í hvaða útflutningsgreinum sem er sem eru ekki beint háðar náttúruauðlindum og geta búið til breiðari grunn í útflutningi og þannig dregið úr sveiflum í íslensku efnahagslífi til lengri tíma litið,“ segir Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs en ráðið gaf út skýrsluna The Icelandic Economy á síðastliðinn fimmtudag . Í skýrslunni kemur meðal annars fram að hlutur hins svokallaða alþjóðgeira í útflutningi Íslands þurfi að aukast eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær.

„Það er ótvírætt að hlutur þessa geira þarf að aukast. Það eru takmörk fyrir því hvað við getum gert í orkugeiranum og fiskunum í sjónum er ekki endilega að fara að fjölga. Auk þess sjáum við það núna að við getum búist við að úr þessu vaxi ferðaþjónustan nær því sem hún gerir á heimsvísu. Við verðum þó aðeins að bíða og sjá með það. Til þess að tryggja kröftugan hagvöxt til að auka hagsæld þá þarf vöxturinn að koma í meira mæli annars staðarfrá og þá stendur lítið eftir nema alþjóðageirinn og hugvitsdrifinn útflutningur"

Spurður hvort að Ísland standi á ákveðnum tímamótum nú þegar hægt hefur á vexti í ferðaþjónustu segir Konráð: „Já, það eru ákveðin tímamót. Til þess að áfram verði hægt að bæta lífskjör þá þarf eitthvað annað að taka við keflinu. Grunnurinn á bak við þetta er sá að við erum svo lítil og svo ofboðslega háð innflutningi þannig að eðli málsins samkvæmt þurfum við einhvern útflutning til að geta staðið undir þeim innflutningi,“ segir Konráð.

„Það eru þó vissulega blikur á lofti. Það sem maður er hræddur við er að þetta þróist til verri vegar þar sem launakostnaður fyrirtækja er hár sem og gengi krónunnar. Það er erfitt fyrir allan útflutning að vaxa og dafna í því umhverfi en hvar jafnvægið liggur verður líklega að koma í ljós.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .