Vörður, fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík samþykkti í gærkvöldi að fyrirhugað leiðtogaprófkjör muni fara fram laugardaginn 27. janúar 2018 að því er kemur fram í tilkynningu frá Verði.

Í tilkynningunni segir að í leiðtogaprófkjörinu muni flokksmenn velja oddvita á framboðslitsa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar sem fram fara 26. maí 2018. „Stjórn Varðar bar þá tillögu upp fyrir fundinn í kvöld að leiðtogaprófkjör í samræmi við 24. gr. prófkjörsreglna Sjálfstæðisflokksins, fari fram laugardaginn 27. janúar 2018. Mikill einhugur var um þá tillögu,“ segir í tilkynningunni.

Halldór Halldórsson, núverandi oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, hefur sagt að hann muni ekki gefa kost á sér í leiðtogaprófkjörinu en þónokkrir hafa verið orðaðir við oddvitasætið m.a. Páll Magnússon, þingmaður, Svanhildur Hólm, aðstoðarmaður forsætisráðherra, Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi, Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri.