Hagnaður húsbílaleigunnar Kúkú Campers nam 147 milljónum króna í fyrra og dróst lítillega saman milli ára. Tekjur félagsins jukust um tæpan fjórðung og námu 586 milljónum, en rekstrargjöld jukust um 37% og námu tæpum 400 milljónum.

Rekstrarhagnaður var nánast óbreyttur og nam 187 milljónum, en hrein fjármagnsgjöld námu 3 milljónum, samanborið við hreinar fjármunatekjur upp á 6,7 milljónir árið áður. Hagnaður dróst því saman um tæp 5%.

Heildareignir félagsins námu 483 milljónum og jukust um 17% milli ára, og skuldir námu 296 milljónum og jukust um 23%. Eigið fé nam því 187 milljónum og jókst um tæp 9%.

Greidd laun námu 85 milljónum króna og hjá félaginu störfuðu „til lengri eða skemmri tíma alls 17 starfsmenn á árinu.“

Þá voru greiddar út 133 milljónir króna í arð á árinu, en fram kemur í ársreikningi að stjórn félagsins hyggst leggja fram tillögu um arðgreiðslu á aðalfundi félagsins í ár.

Í maí á þessu ári var Kúkú Campers sett í formlegt söluferli .