Leigubílstjórar Hreyfils munu á næstunni aðstoða veitingastaði Gleðipinna við heimsendingar.

„Gleðipinnar höfðu samband við okkur og viðruðu þessa hugmynd sem okkur fannst frábær. Leigubílstjórar, líkt og aðrir í þjóðfélaginu, hafa verið uggandi og áhyggjufullir yfir stöðunni. Þetta samstarf kemur sér afar vel fyrir okkur og líka fyrir veitingastaði Gleðipinna. Vonandi getum við lagt okkar af mörkum við að aðstoða þá sem komast ekki úr húsi”, segir Haraldur Axel Gunnarsson, framkvæmdastjóri Hreyfils í tilkynningu frá félögunum. Þar kemur fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir heimsendingu sé pantað fyrir meira en 6.900 krónur en ella leggist 1.500 króna gjald á hverja heimsendingu.

„Leigubílstjórar upplifa minnkandi viðskipti og á sama tíma er mikil eftirspurn eftir take away. Við erum að senda heim frá völdum stöðum með Aha, en samstarfið við Hreyfil eykur enn á afköst okkar í heimsendingu”, segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna.

“Fyrirkomulagið er einfalt og uppá gamla mátann. Þú hringir á þann veitingastað sem þú vilt panta hjá, við svörum og tökum við pöntun og símgreiðslu. Svo hringjum við í Hreyfil og þeir skutla matnum hratt og örugglega til þín. Þú tekur fram hvort þú viljir snertilausa heimsendingu og þá skilur leigubílstjórinn matinn eftir við dyrnar hjá þér”, segir Jóhannes.

Gleðipinnar og Foodco sameinuðust á síðasta ári undir merkjum Gleðipinna . Meðal veitingastaða sameinaðs félags eru Aktu Taktu, Hamborgarafabrikkan, American Style, Shake&Pizza, Eldsmiðjan, Blackbox, Pítan, Roadhouse og Saffran.