Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 1,56 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi, en hagnaðurinn nam 1,45 milljörðum króna á sama tímabili í fyrra. Því jókst hagnaðurinn um rúmlega 100 milljónir króna á milli ára.

Í tilkynningu frá félaginu segir að mikill kraftur sé í atvinnulífinu sem komi meðal annars fram í mikilli eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Þannig virðist sem COVID áhrifa í rekstri gæti ekki lengur. Rekstrartekjur Regins námu 2,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Þar af námu leigutekjur félagsins rúmum 2,6 milljörðum króna og jukust um 9% á milli ára.

Vaxtaberandi skuldir félagsins námu rúmlega 97 milljörðum króna í lok tímabils samanborið við 96 milljarða í lok árs 2021. Í tilkynningu frá félaginu segir að fjárhagsstaða félagsins sé sterk og fjárhagsskilyrði vel innan marka lánaskilmála. Eiginfjárhlutfall var 31,2% á tímabilinu og nam handbært fé 2,85 milljarða króna í lok tímabilsins.

Reginn átti 108 fasteignir í lok mars, en heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 376 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er yfir 98% miðað við þær tekjur sem 100% útleika gæfi og hefur aldrei verið hærri. Eignir að andvirði 1,75 milljarða króna voru seldar á tímabilinu.