Almenna leigufélagið og Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, hafa tekið höndum saman og bjóða einstaklingum sem eru á leigumarkaði á Íslandi upp á fría lögfræðiráðgjöf, óháð því hvar þeir leigja að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá félögunum.

Þjónustan verður í boði á þriðjudögum í vetur milli kl. 18:00 og 20:00 og geta leigjendur hringt í síma 519 1770 þar sem laganemar svara spurningum sem snúa að réttindum leigutaka og skyldum leigusala, undir handleiðslu lögfræðings. Auk þess munu leigutakar geta fræðst um réttindi sín og skyldur á nýjum undirvef á heimasíðu Almenna leigufélagsins .

Í tilkynningunni segir að aðstæður á leigumarkaði hafa verið erfiðar undanfarin ár og það er mikilvægt að leigjendur séu meðvitaðir um réttindi sín og þær skyldur sem hvíla á leigusölum. „Því hafa Almenna leigufélagið og Orator gert með sér samstarfssamning þar sem laganemar veita óháða ráðgjöf til leigjenda, þeim að kostnaðarlausu.“

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Maríu Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins: „Við hjá Almenna leigufélaginu höfum ávallt haft það að leiðarljósi í stefnumótun að gera leigumarkaðinn á Íslandi faglegri og auka vitund meðal leigjenda og leigusala um þær reglur sem gilda. Það lá því beinast við að koma á fót ráðgjafarþjónustu, þar sem leigjendur geta á einfaldan hátt leitað upplýsinga um réttindi sín, og það er frábært að hafa jafn öflugan aðila og Orator til þess að leiða verkefnið.“

Þá segir Orri Heimisson, formaður Orators, að félagið hafi lengi leitast eftir því að nýta þekkingu félagsins í þágu samfélagsins m.a. með því að bjóða upp á framtalsaðstoð til einstaklinga. „Sem ungt fólk þekkjum við vel hversu erfiður húsnæðismarkaðurinn getur verið og því er sérstaklega ánægjulegt að geta nýtt þekkingu okkar til þess að aðstoða við að upplýsa leigutaka um réttindi sín.“