„Það er einstaklega spennandi að vera í mannauðsmálum í tæknigeiranum nú þegar svo mikið er að breytast. Reiknistofan stendur frammi fyrir sömu verkefnum og önnur tæknifyrirtæki þar sem við sjáum að meirihluti þeirra starfa sem við þekkjum í hagkerfinu í dag gæti verið horfinn eða gjörbreyttur eftir fimm eða tíu ár. Eitt af mínum verkefnum með fólkinu þar innanhúss verður því að móta vinnustað framtíðarinnar, sjá hvert við erum að stefna og hvers konar störf við þurfum á næstu árum,“ segir Brynjar Már Brynjólfsson, nýr mannauðsstjóri hjá Reiknistofu Bankanna, en hann kemur frá Origo. „

„Hjá Origo hef ég verið í tveimur hlutverkum, bæði komið að þróun á hugbúnaðarlausnum fyrir mannauðsmál en einnig í hreinum mannauðsmálum. Ég fór fyrst að læra lögfræði, sem mér fannst ofboðslega leiðinlegt, kláraði samt B.A, því það er svo praktískt nám, en ákvað að finna mér master í einhverju sem lægi mér nær, og væri manneskjulegra, og mannauðsstjórnun leyfir mér að vinna með fólki. Eftir námið hófst svo vinnan við að fá sér vinnu við fagið sem tók alveg tíma en ég fékk svo tækifærið hjá Landsbankanum þar sem ég var í fræðslumálunum sem var frábær og dýrmæt reynsla.“

Brynjar Már hefur jafnframt verið stjórnarmaður í Mannauði, félagi mannauðsfólks síðustu þrjú ár og formaður þess undanfarin tvö ár. „Forveri félagsins hét því virðulega nafni Starfsmannastjóraklúbburinn þar sem starfsmannastjórar stórra fyrirtækja hittust, í mínum huga í reykfylltum bakherbergjum, og þá voru þetta mest karlar. Síðan þróaðist þetta í félag mannauðsstjóra og síðan mannauðsfólks. Þetta er fagfélag sem stendur fyrir umræðu um málaflokkinn, og höldum við árlega um 500 manna ráðstefnu, Mannauðsdaginn sem ég hef stýrt síðustu sjö ár,“ segir Brynjar Már.

Brynjar Már býr með sambýlismanni sínum, Gunnari Má Hoffmann deildarstjóra hjá Fjölskylduog húsdýragarðinum, auk þess sem sautján ára sonur vinafólks þeirra býr hjá þeim.

„Núna fer mestallur tími minn utan vinnu í MBA nám við HR sem ég er í samhliða, sem mögulega er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert, en þetta er alveg hrikalega mikil vinna. Þess utan er aðaláhugamálið golf, en ég er svona týpískur hobbígolfari með forgjöf sem mig langar að lækka en besta við golfið er hvað ég er fljótur að gleyma hve lélegur ég get verið og hef húmor fyrir því.

Auk þess fer ég mikið í leikhús, en ég ætlaði lengi að verða leikari, þegar ég var að alast upp í menningarbænum Ísafirði og síðar þegar ég starfaði í miðasölunni í Borgarleikhúsinu. Ég á enn marga vini í þessum bransa og er ég sérstaklega þyrstur á góða söngleiki og stendur þar upp úr þegar ég fór á Vesalingana í London.“