EFLA annast ráðgjöf á öllum helstu sviðum verkfræði, tækni og tengdra greina. Höfuðstöðvarnar eru á Íslandi en að auki starfrækir fyrirtækið dóttur- og hlutdeildarfélög á Íslandi og í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi og Tyrklandi. EFLA skilgreinir Noreg sem sinn heimamarkað ásamt Íslandi. Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, segir að fjölbreytnin einkenni fyrirtækið frekar en einstök verkefni. „Við skilgreinum okkar hlutverk þannig að við komum fram með lausnir sem efla viðskiptavini okkar og samfélög,“ segir Guðmundur. „Hefðbundin verkfræði og tækni eru auðvitað grundvöllurinn, en samfélagið er í svo örri þróun og verkefnin sem að því lúta vægast sagt margþætt.

Samfélagið er að verða sífellt flóknara og innan okkar raða er gríðarlega mikil þekking, ekki aðeins í verkfræði og tækni heldur í öllum samfélagsinnviðum og samfélagsgerð. Við aðstoðum viðskiptavini okkar að feta sig áfram í þessu umhverfi, einfalda ferlið fyrir þá og koma fram með lausnir. Tækninni fleygir líka fram, sem hefur áhrif á allt samfélagið vitanlega, og ekki síst í þekkingargeiranum þar sem við störfum.” Guðmundur segir framundan frekari aðkomu EFLU að styrkingu á innviðum orkuflutninga, sem stjórnvöld hafa nú m.a. lagt áherslu á. Til skemmri tíma muni stærri virkjunarframkvæmdum að líkindum fækka, en fyrirtækið vinnur einnig að þróun smávirkjana á sviði vatnsaflsnýtingar.

Eins er aukin áhersla á betri nýtingu jarðvarmaorku tengd fyrirliggjandi virkjunum, ásamt því að búast má við aukningu í nýtingu vindafls á næstu árum. „Við teljum að sjálfbær orkuöflun og orkunýting sé mjög mikilvæg fyrir Ísland og nánast skylda af hálfu okkar Íslendinga að nýta sjálfbæra orkugjafa okkar með ábyrgum hætti, í samræmi við ríkjandi áherslur í baráttunni gegn mengun og loftlagsbreytingum,“ segir Guðmundur. „Einnig má nefna þjóðgarðamál sem dæmi um vettvang þar sem við viljum leggja okkar af mörkum. Þróun í fiskeldi er einnig mjög áhugaverður vettvangur, en við höfum t.d. skoðað þróunina í vistvænu fiskeldi og þar með talið fiskeldi á landi. Ferðamálin eru líka mikill aflvaki hjá okkur eins og í samfélaginu öllu.

Við komum t.d. að þróun mála hjá Isavia, við höfum verið þátttakendur í þeirri miklu uppbyggingu sem Bláa Lónið hefur staðið fyrir, við erum að vinna að verkefni fyrir Stjórnstöð ferðamála sem snýst um að skilgreina þolmörk í ferðaþjónustu, og svo mætti lengi telja. Við höfum líka lagt okkar af mörkum til að hægt sé að byggja heilnæmari og vistvænni byggingar, hjálpað til við þróun tækni til að auka skilvirkni og gæði í matvælaiðnaði hérlendis, unnið í uppbyggingu fyrirtækja í sjávarútvegi og aðstoðað við að koma á aukinni sjálfvirkni í áliðnaðinum.” Guðmundur segir að verkefnin sem hlutdeildar- og dótturfyrirtæki þeirra erlendis afla skipti verulegu máli fyrir reksturinn og markmiðið sé að auka vægi þeirra til muna.

„Fyrir fimm árum voru 38% af tekjum okkar frá erlendum verkefnum, sem voru þó að miklu leyti unnin frá Íslandi. Í fyrra komu hins vegar 18% af tekjum okkar að utan, sem skýrist að hluta af auknum verkefnum á Íslandi, en ekki síður af minni samkeppnishæfni á erlendum mörkuðum vegna sterkrar krónu og kostnaðarhækkana af ýmsu tagi, ekki síst varðandi launaþróun. Fyrir vikið á íslenskur þekkingariðnaður mjög erfitt um vik í erlendum verkefnum þegar þau eru unnin frá Íslandi. En við erum að bregðast við þessu með því að leggja höfuðáherslu á að byggja upp tækifæri erlendis með því að vinna þau á viðkomandi mörkuðum. Stærsta starfsstöð okkar erlendis er í Noregi þar sem nú starfa fjörutíu manns, og við höfum sett okkur það markmið að starfsemin þar verði önnur meginstoðin í rekstri EFLU. Þar munum við bjóða sambærilega þjónustu og við gerum á Íslandi og kæmi mér ekki á óvart að þar yrðu hundrað manns að störfum í EFLU innan fárra ára. Við munum síðan spila starfsemina á Íslandi og í Noregi saman eftir aðstæðum á hverjum tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .