Óttarr Proppé, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og söngvari HAM og Dr. Spock, var nýlega ráðinn verslunarstjóri Bóksölu stúdenta. „Við hér höfum satt að segja lengi haft augastað á Óttari og eins ljótt og það kann að hljóma, og vonast til að hann missti áhuga á stjórnmálum svo við gætum orðað þessa stöðu við hann,“ segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS. Rætt var við hana í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

„Við höfðum samband við hann fyrir nokkrum vikum og eftir nokkur samtöl ákvað hann að slást í lið með okkur. það var okkur mikið gleðiefni enda er Óttarr reynslubolti í bókaheiminum með yfirgripsmikla þekkingu og ástríðu fyrir bókum. Hann er því mikill fengur fyrir Bóksöluna og að við teljum réttur maður til að hjálpa okkur að efla hana enn betur.“

Átta stjórar á 25 árum

Guðrún hefur verið framkvæmdastjóri í tæp nítján ár. Forveri hennar í starfi sat í sex ár en fyrstu 25 ár FS var staða framkvæmdastjóra mjög pólitísk og sinntu átta því starfi á þeim tíma. „Fyrri hálfleikurinn var mjög pólitískur. Framkvæmdastjórar og stjórnir fuku inn og út eftir pólitískum vindum. Fólk stoppaði yfirleitt stutt. Þetta hamlar allri festu í vexti, við höfum bara svo skýran samanburð. Eftir 25 ár verður Guðjón Ólafur Jónsson formaður stjórnar FS, en hann starfaði lengst allra stjórnarformanna FS. Þá verður loksins einhver festa. Ég upplifði mjög sterkt þegar ég kem hérna inn að það var gjá milli FS og stúdenta. Það tók nokkur ár að laga þetta. Núna held ég fund með stúdentum einu sinni á ári þar sem við sýnum allar tölur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .