Sé miðað við mannfjöldaspá Byggðastofnunar mun börnum á leikskólaaldri í höfuðborginni fjölga um 37% árin 2021 til 2026. Miðað við áætlanir borgarinnar um fjölgun leikskólaplássa mun því vanta um 1.775 leikskólapláss í árslok 2026 rætist spáin.

Stýrihópurinn „Brúum bilið", sem skipaður var í maí 2016 og skilaði tillögum að uppbyggingu leikskóla í Reykjavík í nóvember 2018, lagði til að leikskólaplássum yrði fjölgað um 700-750 á næstu fimm árum svo að bjóða mætti öllum börnum tólf mánaða og eldri leikskólavist í borginni fyrir lok árs 2023.

Á árunum 2019 til 2021 fjölgaði leikskólaplássum um 320, en það sem af er þessu ári hefur þeim leikskólaplássum fjölgað um 130 til viðbótar. Af þeim 720 leikskólarýmum sem gert er ráð fyrir til viðbótar á árinu 2022 voru 300, eða 42%, annaðhvort enn í undirbúningi eða á stigi hönnunar í byrjun mars, en framkvæmdir stóðu þá yfir á 420 leikskólaplássum. Þess ber að geta að þau 850 rými sem gert er ráð fyrir á þessu ári samsvari 2,6 sinnum þeim fjölda rýma sem bætt var við síðustu þrjú árin á undan.
Leikskólapláss fylgi lengingu fæðingarorlofs

Í ávarpi sínu í skýrslu stýrihóps um uppbyggingu leikskóla frá því í nóvember 2018 segir Skúli Helgason, formaður stýrihópsins og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, það vera mikilvæga forsendu verkefnisins að áform ríkisins um lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði verði að veruleika.

„Reykjavíkurborg vill og hyggst taka fulla ábyrgð á því að bjóða börnum leikskólaþjónustu að því loknu," segir Skúli í ávarpinu. Hann nefnir einnig að stýrihópurinn telji raunhæft að hægt verði að ná því langþráða markmiði að geta brúað bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla á næstu fimm árum.

Í desember 2020 samþykkti Alþingi lengingu fæðingarorlofs úr tíu mánuðum í tólf frá og með 1. janúar 2021. Þrátt fyrir það eru í dag um 800 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík og gerir spá borgarinnar ráð fyrir því að sá fjöldi verði svipaður í árslok 2026, en samkvæmt spá Byggðastofnunar yrði hann tæplega þúsund börnum meiri.

Vilja gjaldfrjálsa leikskóla

Samkvæmt gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var hlutfall þjónustutekna af rekstrarkostnaði leikskóla á landsvísu einungis 10,5% árið 2020, en til samanburðar var sama hlutfall um 28% árið 2004. Í Reykjavík var hlutfallið lægra, eða 7,7% árið 2020. Þrátt fyrir þetta hafa ýmsir stjórnmálaflokkar, t.a.m. Píratar, Vinstri græn og Sósíalistaflokkurinn, gefið það út í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að þau vilji bjóða gjaldfrjálsa leikskóla í a.m.k. sex klukkustundir á dag, en rekstrarkostnaður á hvert heilsdagsígildi leikskóla nam tæpum þremur milljónum króna árið 2020.

Þá vilja einhverjir flokkar bregðast við þeim raunveruleika sem kemur fram í spám og gerir ráð fyrir að ekki öll börn á leikskólaaldri muni fá leikskólapláss. Framsóknarflokkurinn vill efla dagforeldrakerfið og bjóða heimagreiðslur með barni sem bíður eftir leikskólaplássi til að brúa bilið. Flokkur fólksins vill greiða foreldrum sem ákveða að hafa börn sín heima á aldrinum eins til tveggja ára mánaðarlegan styrk sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir hvert barn í leikskóla. Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja foreldrastyrk að fjárhæð 200.000 kr. mánaðarlega, til foreldra sem kjósa að vera heima með börnin sín að fæðingarorlofi loknu, til allt að tveggja ara aldurs. Sjálfstæðisflokkurinn vill einnig, líkt og Viðreisn, gera stærri vinnustöðum kleift að reka eigin leikskóla eða daggæslu fyrir börn starfsmanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .