Eftir að Landspítalinn tók yfir greiningu brjóstakrabbameins af Krabbameinsfélagi Íslands hefur þurft að flytja inn röntgenlækna til að vega á móti lengingu biðlista að því er Fréttablaðið greinir frá.

Hafi biðin eftir því að fá svar úr greiningunni farið á tímabili upp í allt að fjóra mánuði, en ástæðan fyrir lengingu biðlistanna er sögð sú að erfitt hafi verið að manna stöður röntgenlækna. Til að bregðast við því hafi röntgenlæknar einnig verið sendir suður frá Akureyri.

Halla Þorvaldsdóttir formaður Krabbameinsfélagsins staðfestir að biðlistarnir hafi lengst eftir að ríkið tók yfir greininguna frá félaginu árið 2017. Áður en það gerðist höfðu röntgenlæknar á einkareknu læknastofunni Domus Medica sinnt myndgreiningunni fyrir félagið.

„Landspítali hefur því gripið til þess ráðs að fá erlenda lækna til að koma hingað og vinna um helgar,“ segir Halla, sem segir ástandið hafa skánað eftir að erlendu læknarnir hafi komið í helgarvinnu við skimun hér á landi.

Um er að ræða algengustu tegund krabbameins í konum, en í fyrra greindust um 210 konur með sjúkdóminn, auk fjögurra karlmanna, sem eru svipaðar tölur og hafi verið síðustu 15 árin, svo stærð verkefnisins ætti ekki að hafa komið Landspítalanum á óvart þegar þeir tóku það yfir.