Grikkland skuldar meira en 300 milljarða evra, sem er um það bil 180% af vergri landsframleiðslu landsins, en eins og fram kom í fréttum í morgun hefur landið náð samkomulagi við alþjóðlega lánveitendur sína um 10,3 milljarða evra aukin lán.

Fjármálaráðherrar evrusvæðisins samþykktu einnig að framlengja endurgreiðslutímabil lána og setja hámark á vexti. Grikkland þarf á þessu aukna lánsfé að halda til að greiða af skuldum sínum í júlí komandi.

Fá ekki skuldaniðurfellingu

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fjármálaráðherrar evrusvæðisins hafa tekist á um frekari skuldaniðurfellingar fyrir Grikkland, en sjóðurinn telur þær nauðsynlegar en sérstaklega Þýskaland hefur verið á móti. Nú þegar samkomulag hefur náðst hyggst Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þó íhuga að taka þátt í björgunaraðgerðunum.

Fjármálaráðherrarnir 19 segja að samkomulagið hafi verið mögulegt vegna efnahagsumbóta í Grikklandi. Það mun þó ekki minnka þá upphæð sem Grikkland þarf að endurgreiða á endanum.