Fyrirtækið Dineout var fyrst stofnað fyrir rúmum tveimur árum og býður bæði upp á bókunarkerfi fyrir veitingastaði og viðskiptavinum veitingastaða að bóka borð á hinum ýmsu stöðum bæjarins með afar einföldum hætti.

„Viðmótið á vefsíðunni okkar er einfalt og mjög þægilegt,“ segir Inga Tinna Sigurðardóttur, rekstrarverkfræðingur og einn stofnenda Dineout, en hún rekur fyrirtækið ásamt Magnúsi Birni Sigurðssyni, rekstrarverkfræðingi og forritara, Viktori Blöndal Pálssyni, forritara og hönnuði, Gylfa Ásbjörnssyni matreiðslumanni og Sindra Má Finnbogasyni, eiganda Tix.is.

Dineout er nú í samstarfi við 62 veitingastaði en að sögn Ingu Tinnu bætast við tveir til þrír veitingastaðir í hverri viku. „Við vorum nýverið að bæta við Grillmarkaðnum og Fiskmarkaðnum en nú þegar eru fjölmargir af vinsælustu stöðum landsins þar inni, til dæmis Fjallkonan, Kol, Matarkjallarinn og Apótekið.“

Hún bætir við að velflestir staðir á höfuðborgarsvæðinu noti Dineout en fyrirtækið stefni að því að fara í samstarf við fleiri veitingastaði á landsbyggðinni.

Inga Tinna segir að hugmyndin að Dineout hafi kviknað þegar hún kom auga á hversu mikil þörfin væri. „Ég á líka fyrirtæki sem heitir Icelandic Coupons og er það app sem veitir aðgang að afsláttarkjörum. Þegar ég var að funda með forsvarsmönnum veitingastaða, tók ég eftir þörfinni á þessari lausn. Á þessum tíma starfaði ég í flugi, og geri enn, og ferðaðist mikið til Ameríku þar sem álíka lausn sem heitir OpenTable er vinsæl. Það má segja að þá hafi hugmyndin smollið saman.“

Hafa varla undan

Inga Tinna segir að fyrirtækið glími við það lúxusvandamál að þau hafi varla undan. „Við höfum fengið svakalega góðar viðtökur, við höfum varla undan að taka við símtölum frá fyrirtækjum sem vilja nýta sér þessa lausn og erlendir aðilar eru líka farnir að hafa samband.“

Hún bætir við að veitingastaðirnir sem eru í Dineout greiði mánaðargjald fyrir aðgang að bókunarkerfinu auk þóknunar fyrir hverja bókun sem fæst í gegnum vefsíðuna.

„Allir okkar viðskiptavinir eru mjög ánægðir með kerfið. Við höfum heyrt það bæði frá veitingastöðunum og þeim sem bóka í gegnum síðuna okkar.“

Mikið á döfinni

Dineout mun bráðlega verða aðgengilegt í smáforriti en ekki eingöngu á vefsíðunni dineout.is. „Við munum kynna smáforritið Dineout á næstu vikum, en þegar það er komið munu notendur auðveldlega geta haldið utan um sína uppáhaldsveitingastaði auk þess sem hægt er að leita eftir lausum borðum á veitingastöðum í nágrenninu og fleira,“ segir Inga Tinna.

Hún bætir við að það sé einnig í vinnslu að tengja Dineout við tix.is „Með því að tengja vefinn okkar við tix.is auðveldum við fólki að bóka borð fyrir eða eftir einstaka viðburði.“

Hún segir að fyrirtækið stefna á að færa starfsemi sína út fyrir landsteinana þegar fram líða stundir. „Við stefnum á, og við teljum að það sé mjög raunhæft markmið, að geta boðið upp á þjónustuna okkar líka á erlendri grund á komandi misserum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .