Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem samanstendur af fimm þingmönnum stjórnarflokkanna, hefur lagt fram frumvarp sem heimilar lífeyrissjóðum að fjárfesta í afleiðum sem kunna að auka áhættu sjóðanna. Kapp er lagt á að umrætt frumvarp verði að lögum áður en hlutafjárútboð Icelandair fer fram.

Málið er nátengt tveimur þingmálum er varða veitingu 15 milljarða króna ríkisábyrgðar á þrautavaralánalínu til Icelandair. Skilyrði fyrir téðri ábyrgð er að flugfélaginu takist að safna 20 milljörðum króna af nýju hlutafé. Þar hafa ríkisbankarnir tveir sölutryggt þrjá milljarða hvor takist að safna fjórtán milljörðum í útboðinu. Hverjum seldum hlut í útboðinu fylgja áskriftarréttindi sem samsvara 25% af skráningu nýrra hluta.

„Þar sem slík áskriftarréttindi kunna að teljast afleiður í skilningi laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í afleiðum eru að óbreyttu háðar því skilyrði að þær dragi úr áhættu sjóðs, er mikilvægt að gera þá lagabreytingu sem frumvarp þetta kveður á um áður en framangreint hlutafjárútboð fram,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Líkt og kunnugt er geta afleiðuviðskipti verið afar áhættusöm og tap af einstökum tegundum þeirra getur fræðilega verið ótakmarkað. Það á þó ekki við um allar tegundir afleiða. Í greinargerðinni segir að hugsanlegt tap í þessu tilfelli sé „fyrir fram þekkt og vel afmarkað.“ Slík kaup geti því vel samrýmst „varfærinni fjárfestingastefnu lífeyrissjóða“.

„Með frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í afleiðum sem fela aðeins í sér rétt, en ekki skyldu, til að kaupa eign eða til áskriftar að henni þótt þær dragi ekki úr áhættu sjóðanna. Með breytingunni er þannig lagt til að heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í afleiðum verði rýmkaðar og að með því móti verði möguleikar þeirra til fjárfestinga auknir,“ segir í greinargerðinni.

Umrætt frumvarp er samið af meirihluta nefndarinnar í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þá komu á fund nefndarinnar fulltrúar frá fjármálaeftirliti Seðlabankans og Landssamtökum lífeyrissjóða. Fulltrúar sjóðsins stungu upp á því að breytingin myndi ná til valréttarsamninga, það er bæði kaup- og sölurétta, en ekki aðeins áskriftarsamninga.

„Nefndinni vannst ekki nægt svigrúm innan þess tíma sem gafst við vinnslu frumvarpsins til að leggja fullnægjandi mat á framangreindar tillögur og hafa um þær nauðsynlegt samráð við sérfræðinga og hagaðila. Meiri hluti nefndarinnar, sem stendur að framlagningu frumvarpsins, telur þó ríkt tilefni til að slík vinna fari fram. Leggur meiri hlutinn til að nefndin hafi samráð um þá vinnu, m.a. við ráðuneytið og Seðlabanka Íslands, á komandi löggjafarþingi,“ segir í niðurlagi greinargerðarinnar.