Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian, sem á nú í einkaviðræðum við Símann um kaup á Mílu, hyggst bjóða íslenskum lífeyrissjóðum að eignast 20% hlut á móti sér, á sömu kjörum. Áætlað heildarvirði (e. enterprise value) Mílu í viðskiptunum mun liggja á bilinu 70-80 milljarðar króna, samkvæmt heimildum Vísis .

Fyrirhugað er að lífeyrissjóðirnir komi að kaupunum á fimmtungshlutunum á Mílu í gegnum nýjan innviðasjóð í rekstri Summu, sem gæti orðið allt að 15 milljarðar króna að stærð. Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta og Frjálsi hafa þegar skuldbundið sig til að leggja innviðasjóðnum til fjármagn. Fyrir liggja hlutafjárloforð frá lífeyrissjóðum að fjárhæð tæplega níu milljarðar króna.

Meðal annarra fjárfesta sem sýndu áhuga á Mílu var breska sjóðastýringarfélagið Triple Point, sem var jafnvel tilbúið að greiða hærra verð en Ardian, samkvæmt heimildum Vísis. Það að Síminn hafi valið Ardian fram yfir Triple Point og gengið til einkaviðræðna áður en formlegur frestur til að gera skuldbindandi tilboð í Mílu rann út, er sagt til marks um að Ardian hafi sett fram trúverðugt og heildstætt tilboð.

Þá hafi Ardian lagt fram tilboð sitt í Mílu síðastliðið föstudagskvöld, þar sem helstu skilmálar voru útlistaðir og farið fram á einkaviðræður. Stjórn Símans fékk tveggja daga frest til að taka afstöðu til tilboðsins.

Fyrirkomulag í smíðum sem tryggir aðkomu ríkisins

Fyrirhuguð sala á Mílu til Ardian var tekin upp í þjóðaröryggisráði á mánudaginn. Sigurður Ingi Jóhannesson samgönguráðherra sagði við RÚV nauðsynlegt að skýr sýn lægi fyrir hvaða þáttum sem snúa að þessum innviðum stjórnvöld þurfi að geta haft stjórn á.

Haft var eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, í Markaðnum í dag að fyrirtækið hefði rætt við stjórnvöld um hvernig Míla og innviðir félagsins snerti þjóðaröryggi.

„Í smíðum er fyrirkomulag sem tryggir inngrips-, upplýsinga- og eftirlitsmöguleika hins opinbera enn betur en fyrr, þótt eignarhaldið breytist. Rekstur og staðsetning á lykilbúnaði verður í innlendri lögsögu og þar með undir aðgengilegu eftirliti innlendra stofnana, hér eftir sem hingað til. Ekki er hægt að flytja grunninnviði úr landi og stýringar þeirra verða hér,“ sagði Orri.

Hann benti jafnframt á að Fjarskiptastofa stýrði með um tveimur þriðju af tekjum Mílu með kvöðum og gjaldskrám. Orri tók einnig fram að 85% af heimilum landsins væru með ljósleiðaraþræði frá öðrum fyrirtækjum en Mílu og þrjú farsímakerfi væru í landinu. Því ríkti bæði innviða- og þjónustusamkeppni á íslenskum markaði. Viðskiptavinir geti fært sig auðveldlega á milli fjarskiptafyrirtækja og „Míla getur því ekki hækkað verð eftir hentisemi,“ er haft eftir Orra í Markaðnum.