Stærstu eigendur Skeljungs höfnuðu allir yfirtökutilboði Strengs ehf. en tilboðsfrestur rann út í gær. Lífeyrissjóðirnir sex, Frjálsi, Birta, Festa, Stapi, Lífsverk og Gildi, fara samtals með um 37% hlut í félaginu.

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um að Gildi hyggðist ekki taka tilboðinu enda þætti tilboðsverðið of lágt. Aðrir lífeyrissjóðir gengu ekki að tilboði fjárfestahópsins af sömu ástæðu, að því er fram kemur í Kjarnanum .

Tilboðsverð Strengs hljóðaði upp á 8,315 krónur á hlut sem er töluvert lægra en gengi bréfanna er á markaði um þessar mundir, en gengi þeirra var 9,03 krónur við lokun markaða í gær.

Viðskiptablaðið hafði áður fjallað um að ólíklegt værði að úr áformum fjárfestahópsins um afskráningu Skeljungs yrði, vegna óánægju hluthafa með tilboðsverðið.

Fjárfestahópurinn freistði þess að tryggja sér níutíu prósent hlutafjár og innlausnarrétt þar með. Strengshópurinn ætlaði sér að ráðast í umfangsmiklar breytingar á uppbyggingu félagsins í kjölfar afskráningar félagsins, ef af henni yrði. Á meðal fjárfesta í hópnum eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir, Nanna Björk Ásgrímsdóttir og Sigurður Bollason.