Um síðustu áramót námu eignir lífeyrissjóðanna samtals tæpum 3.277 milljörðum króna en það svarar til um þriðjungs fjármálakerfisins. Lífeyrissjóðirnir hafa líkt og aðrir innlendir aðilar haft heimild til að endurfjárfesta í fjármunum sem þeir áttu erlendis fyrir 28. nóvember árið 2008. Höftin hafa hins vegar komið í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir fjárfesti erlendis umfram þær eignir. Í lok árs 2015 var hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóð­ anna á móti heildareignum 22,5% en sé litið á tímabilið frá 2011 var þetta hlutfall hæst í mars á síðasta ári, eða 24,8%. Frá árinu 2000 var hlutfallið hæst í 29,1% í kringum áramótin 2009/2010.

Þegar stjórnvöld kynntu áætlun um losun fjármagnshafta í júní á síðasta ári voru fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í erlendum gjaldmiðlum rýmkaðar. Þannig mega lífeyrissjóðir fjárfesta erlendis sem nemur 10 millj­ örðum króna á ári til viðbótar við núverandi heimildir til ársins 2020, eða sem nemur fjórðungi af hreinu innstreymi í lífeyrissjóð­ ina á tímabilinu. Því til viðbótar veitti Seðlabankinn lífeyrissjóð­ unum undanþágu til að fjárfesta í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri sem nemur 10 milljörðum króna, þ.e. til jafns við markmiðið sem kynnt var í áætluninni.

Þá heimild mátti nýta á síðari árshelmingi ársins 2015. Í sérstakri rammagrein í nýjasta Fjármálastöðugleika Seðlabankans kemur fram að vegna gjaldeyrisinnstreymis á síðastliðnu ári og samþykktar nauðasamninga föllnu bankanna, sem dró úr óvissu um þróun greiðslujafnaðar, hafi skapast aukið svigrúm til frekari veitingar undanþága. Þannig veitti Seðlabankinn lífeyrissjóðunum undanþágu frá gjaldeyrislögum til að fjárfesta erlendis sem nemur 20 milljörðum króna sem dreifist yfir fyrstu fjóra mánuði ársins 2016.

Spurður að því hverju aflétting hafta mun breyta fyrir starfsemi Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, að engar stórvægilegar breytingar verði á fjárfestingarstefnu sjóðsins á þessu ári en að ljóst sé að uppbygging sé fram undan í erlendu eignasafni sjóðsins. „Eins og stað­ an er núna þá eru 26% af sjóðnum í erlendum verðbréfum og það er auðvitað langtímamarkmið að hækka þetta hlutfall,“ segir hann. „Það væri gott að sjá þetta hlutfall í kringum 40% á komandi árum. Þetta þurfum við að byggja upp. Þá eru kannski fyrirferðarmestir þessir heimsvísitölusjóðir eða söfn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .