Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, vill að skoðanaskipti á hlutabréfamarkaði verði í meira mæli uppi á yfirborðinu. Fyrirtækin hafi almennt staðið sig vel í að skýra frá rekstri en fjárfestar geti bætt sig. „Ég kalla eftir því að fjárfestar láti meira í sér heyra þannig að þeirra sjónarmið séu meira áberandi í umræðu um atvinnulíf, afkomu og horfur í rekstri fyrirtæki. Þeir hafa hingað til haldið sig of mikið á hliðarlínunni að mínu viti. Ég vona að það verði breyting á þessu ári,“ segir Stefán Broddi. „Til að mynda er lífeyrissjóðum falið að stjórna nær öllum sparnaði almennings. Ég vil gjarnan að þeir sýni það opinberlega að þeir séu að vakta eignir sjóðfélaga og sýni fyrirtækjum aðhald og stuðning eftir því sem við á.“

Stefán Broddi bendir á að gæði markaða séu ekki mæld í hækkun eða lækkun milli ára heldur hversu vel verðþróun hlutabréfa endurspegli afkomuhorfur félaganna. „Til þess að svo sé þarf markaðurinn að bregðast við breytingum á horfum og áhættu í rekstri félaganna.“ Þar geti skoðanaskipti fjárfesta á opinberum vettvangi skipt máli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .