Stærsti einstaki kaupandi bréfa í HB Granda þegar Hampiðjan seldi sig út eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun mánaðarins, var Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, A og B deild, sem keypti fyrir samtals tæpar 800 milljónir króna.

Auk LSR keyptu Birta lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verslunarmanna í útgerðarfélaginu og nam fjárfesting sjóðanna samanlagt 1,7 milljörðum króna í félaginu. Jafnframt hafa tveir sjóðir á vegum Stefnis keypt fyrir samtals 360 milljónir í félaginu, en markaðsvirði þess hefur lækkað töluvert síðan stjórnarslitin urðu á föstudag en heildarvirði félagsins er nú 58 milljarðar króna að því er Kjarninn greinir frá.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í kjölfar viðskiptanna, lauk með viðskiptunum yfir 30 ára sögu eignarhalds Hampiðjunnar í útgerðarfélaginu, en félagið var stærsti einstaki seljandi bréfanna í mánuðinum.