Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í hlutabréfaviðskiptum dagsins á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar, um 0,02% og stendur fyrir vikið í 2,714,62 stigum en heildarvelta nam 2,7 milljörðum króna.

Mest lækkaði gengi hlutabréfa í tryggingafélaginu VÍS, um 2,54% í 251 milljón króna viðskiptum. Þá lækkaði gengi hlutabréfa Regins um 2,15% og Icelandair um 1,8%

Þau félög sem hækkuðu að gengi, hækkuðu hóflega. Þar af hækkaði gengi hlutabréfa í Festi mest, um 0,56% í litlum 345 þúsund króna viðskiptum. Þá hækkaði gengi Skeljungs um 0,51% og Arion banka um 0,5%.

Mest var velta með bréf Marel, um 562 milljónir króna en gengi bréfa félagsins stóð í réttum 860 krónum í dagslok. Þá var um velta með bréf í Iceland Seafood um 464 milljónir og viðskipti með bréf í Arion banka námu um 461 milljón króna.

Mikil velta með ríkisskuldabréf

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 9 milljörðum króna, en mest var velta með tvo flokka óverðtryggðra ríkisskuldabréfa á lengri endanum, RIKB 28 1115 og RIKB 31 0124, samtals um 4,2 milljarðar króna. Þriðji veltuhæsti skuldabréfaflokkurinn var RIKS 26 0216, sem eru meðallöng verðtryggð ríkisskuldabréf.

Af helstu viðskiptamyntum íslensku krónunnar styrktist evran gagnvart krónunni um 0,13% og fæst evran nú fyrir 157,52 krónur, og pundið hækkaði um 0,27% og fæst nú fyrir 177,92 krónur. Bandaríkjadalur, veiktist gagnvart krónunni um 0,24% og fæst keyptur fyrir 129,64 krónur. Norska krónan styrktist um 0,78% gagnvart þeirri íslensku og fæst nú keypt á genginu 15,412 krónur.