Frá og með 13. janúar verða fjöldatakmarkanir 20 manns og heilsu- og líkamsræktarstöðvum verður leyft að hefja starfsemi á ný, þó með ströngum skilyrðum.

Hámarksfjöldi viðskiptavina verslana á hvern fermetra verður hinsvegar helmingaður úr 50 á hverja 100 fermetra í 25, þó aldrei fleiri en 100. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu á vef Heilbrigðisráðuneytisins .

Hámarksfjöldi gesta á heilsu- og líkamsræktarstöðvum verður helmingur þess sem kveðið er á um í starfsleyfi, eða gert ráð fyrir í búningsklefa sé því ekki að skipta. Búningsklefar skulu vera lokaðir, og hámarksfjöldi í hóptíma verður 20 manns, og gestir í hvern tíma skráðir. Sem fyrr eru börn fædd 2005 og síðar ekki talin með.

Þá verða íþróttakeppnir heimilaðar án áhorfenda, og skíðasvæðum heimilað að opna með takmörkunum. Íþróttaæfingar verða sömuleiðis heimilaðar með og án snertingar, innandyra sem utan, en með 50 manna hámarki í hverju rými.

Hámarksfjöldi í sviðslistum og á öðrum menningarviðburðum verður aukinn í 50 manns á sviði og 100 fullorðna og 100 börn fædd 2005 og síðar í sal. Andlitsgrímur skulu notaðar „eins og kostur er“ og tveggja metra reglan viðhöfð „eftir föngum“ fyrir þá sem eru á sviði, en fullorðnum gestum er skylt að bera grímu.

Uppfært 16:28: Ráðuneytið hefur nú birt uppfærðar reglur þar sem fram kemur að reglur um fjöldatakmarkanir verslana verði óbreyttar.