Magnús Harðarson tók nýlega við starfi forstjóra Kauphallar Íslands. Mikilvægasta málið af mörgum í nýja starfinu finnst honum að breyta umræðunni um hlutabréfamarkaðinn, og verðbréfamarkaðinn almennt, en hann segir tilhneigingu til þess í hugum margra að sjá Kauphöllina einungis sem vettvang fyrir verðbréfabrask. „Mér finnst umræðan oft vera á þá leið að Kauphöllin og verðbréfamarkaðir séu á vissan hátt einangrað fyrirbæri, þar sem fram fari viðskipti með verðbréf í þeim eina tilgangi að hagnast á skammtímasveiflum, eins og þetta sé núllsummuleikur.“

Hlutverk kauphallar í atvinnulífinu, og samfélaginu öllu, sé hinsvegar annað og meira. Mörgum hætti til að líta á Kauphöllina sem einskonar spilavíti, en í raun sé hún líkari hópfjármögnunarsíðum á borð við Kickstarter, þar sem hugmyndir atvinnurekenda geti orðið að veruleika með hjálp dreifðs hóps fjárfesta sem allir leggi sitt af mörkum, þótt þeir fái auðvitað peninga til baka að launum, í stað tiltekinnar vöru.

„Grundvallarhlutverk markaðarins vill gleymast. Raunin er auðvitað sú að til lengri tíma litið hagnast allir á virkum hlutabréfamarkaði: fjárfestar, fyrirtæki, starfsmenn þeirra og viðskiptavinir. Markaðurinn hefur ekki þann eina tilgang að miðlarar og fjárfestar geti grætt á að kaupa og selja. Auðvitað vilja allir fá sem mest útúr sinni fjárfestingu, en grundvallarhlutverk verðbréfamarkaðarins er að miðla fjármagni þangað sem það nýtist best og ber þar af leiðandi mestan arð. Takist það vel skapar það störf, ýtir undir hagvöxt, og hefur almennt víðtæk jákvæð áhrif, fyrir utan auðvitað að skila arði til fjárfesta. Þetta vill gjarnan tapast í umræðunni, og maður finnur það alveg að það dregur úr pólitískum vilja til að styðja við markaðinn og efla undirstöður hans.“

Nánar er rætt við Magnús í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út 30 desember. Hægt er að kaupa eintak hér .