Linda Hrönn Björgvinsdóttir og Sandra Ósk Sigurðardóttir hafa verið ráðnar til Kynnisferða. Linda hefur verið ráðin sem markaðsstjóri Kynnisferða og Sandra Ósk hefur verið ráðin til að stjórna vefþróun og stafrænum lausnum. Ráðningar þeirra eru hluti af áherslubreytingum innan Kynnisferða sem hófust sl. haust með ráðningu Engilberts Hafsteinssonar yfir sölu- og markaðssviðs fyrirtækisins en með þeirri ráðningu var stígið fyrsta skrefið í áherslu Kynnisferða á stafræna framtíð.

,,Það er markmið okkar að efla stafræna hlutann hjá Kynnisferðum, hvort sem það eru söluleiðir, bakvinnsla eða bætta upplifun fyrir viðskiptavini okkar. Ég er afar ánægður að fá Lindu og Söndru í þá vegferð okkar enda mikil reynsla sem þær koma með inn í þetta stóra verkefni. Öflug reynsla þeirra beggja úr ferðaþjónustunni mun nýtast okkur vel í þeim framtíðar áætlunum sem við höfum sett okkur," segir Engilbert.

Linda starfaði undanfarin fjögur ár sem svæðisstjóri sölu- og markaðsmála hjá WOW air. Á þeim tíma bar hún ábyrgð á mismunandi markaðssvæðum i Evrópu m.a. Bretlandi, Írlandi, Þýskalandi og Hollandi. Linda tók þátt í stefnumótun og þróun stafrænna auglýsingalausa fyrir WOW air.
Þar á undan starfaði Linda í Kaupmannahöfn sem við markaðssetningu á netinu, viðskiptaþróun og viðburðastjórnun. Linda lauk Mastersnámi í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og BS í ferðamálafræði með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands.

Sandra starfaði sem vefstjóri hjá WOW air undanfarin fimm ár. Hún bar ábyrgð á vefsíðum, bókunarvélum og appi félagsins á öllum tungumálum og mörkuðum. Hún tók virkan þátt í stefnumótun og þróun á veflausnum WOW air. Hún starfaði þar áður sem vefstjóri hjá Primera Air og Mortgage Bankers Association í Washington og sem rekstrarstjóri hjá Pilgrim í Washington. Sandra er með BS í viðskiptafræði frá Háskólanum í Lousiana.