Indónesíska flugfélagið Lion Air hafði í hyggju að senda flugmenn sína í sérstaka þjálfun í flughermi til að búa þá undir flug á Boeing 737 Max vélunum. Hætt var við þau áform eftir að flugvélaframleiðandinn sannfærði stjórnendur félagsins um að slíkt væri óþarfi. Sagt er frá á vef Bloomberg .

Samræðurnar áttu sér stað árið 2017 en ári síðar fórust 189 einstaklingar eftir að slík vél á vegum félagsins hrapaði skömmu eftir flugtak. Talið er að flugslysið megi að hluta rekja til vanþekkingar flugmanna á eiginleikum stjórntækja og tölvubúnaðar í vélinni en upplýst er að tölvubúnaður og skynjarar virkuðu ekki sem skyldi í ferðinni.

„Nú þarf „friggin“ Lion Air mögulega tíma í hermi til að geta flogið Max-inum, og kannski helst vegna þeirra eigin heimsku. Ég er að reyna að finna út úr því hvernig ég redda þessu! Hálfvitar,“ segir í innanhússkeyti sem starfsmaður Boeing skrifaði í júní 2017. Gögnin voru gerð opinber nýverið í tengslum við rannsókn bandarískra yfirvalda á málinu.

Skeytinu var svarað með eftirfarandi orðsendingu: „WHAT THE F%$&!!!! En systurfélag þess er nú þegar að fljúga vélunum!“ Er þar átt við malasíska félagið Malindo Air sem var fyrsta félagið til að taka Max þoturnar í notkun.

Ef raunin hefði verið sú að starfsfólk þyrfti sérstaka þjálfun á Max vélarnar hefði það haft áhrif á einn helsta sölupunktinn við þær – nefnilega að áhafnir þjálfaðar á eldri gerðir 737 vélanna þyrftu ekki sérstaka þjálfun fyrir Maxinn.

Eftir tvö mannskæð flugslys á 737 Max vélunum hafa þær verið kyrrsettar frá vormánuðum í fyrra. Enn er óljóst hvenær þær munu takast á loft á nýjan leik. Boeing hefur þurft að greiða flugfélögum sem keypt höfðu Max vélar, þar á meðal Icelandair, háar fjárhæðir í bætur vegna þessa.