Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, verður með hádegisfyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík (HR) á morgun. Fundurinn, sem er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Viðskiptablaðsins, fer fram í stofu V102 í HR og mun standa frá klukkan 12 til 13. Fundurinn er opinn öllum.

Gréta María, sem hlaut viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar um áramótin, mun í erindi sínu, sem ber yfirskriftina „Listin að mistakast“, fjalla um faglega og persónulega nálgun hennar á stjórnun, hvað það er sem hefur mótað hana sem leiðtoga og hver markmið hennar eru í framtíðinni.

Auk þessa mun Gréta María fjalla um samfélagslega ábyrgð en Krónan hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir að hafa markvisst lagt áherslu á umhverfis- og lýðheilsumál í sínum rekstri. Auk þess að hljóta viðskiptaverðlaunin um áramótin síðustu hlaut Krónan Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, í fyrra.

Því til viðbótar fékk Krónan viðurkenningu frá Samtökum atvinnulífsins fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála síðasta haust og þá fengu einnig tvær verslanir fyrirtækisins svansvottun Umhverfisstofnunar.

Gréta María á fjölbreyttan starfsferil að baki og meðfram störfum sínum hefur hún sinnt stundakennslu við verkfræðideild Háskóla Íslands, sem og við MPM-nám Háskólans í Reykjavík. Eftir verkfræðinámið í Háskóla Íslands starfaði Gréta María hjá VKS, sem var í Kögunar-samstæðunni. Þar sinnti hún gæðamálum, sem og ráðgjöf og upplýsingatækni um tveggja ára skeið eða frá árinu 2005 til 2007.

Árið 2007 færði Gréta María sig yfir í Sparisjóðabankann, þar sem hún starfaði sem sérfræðingur í fjárstýringu til ársins 2009.

Eftir dvöl sína hjá Sparisjóðabankanum starfaði Gréta María í fjárstýringu hjá Seðlabanka Íslands í tæpt ár eða til ársins 2010 þegar hún var ráðin til Arion banka. Þar byrjaði hún í teymi sem hélt utan um skuldsett fyrirtæki en fljótlega var hún ráðin forstöðumaður Hagdeildar bankans.

Árið 2016 var Gréta María ráðin fjármálastjóri Festi. Því starfi gegndi hún um tveggja ára skeið eða þar til í september árið 2018 þegar hún tók við sem framkvæmdastjóri Krónunnar.