Páll Kr. Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri VARMA, sagði í viðtali í Viðskiptablaðinu í vikunni að á Íslandi væri svikalogn.

Páll segir að undanfarin 15 ár hafi stjórnvöld lagt mikið kapp á nýsköpun. Áherslan hafi hins vegar ekki verið rétt. „Stjórnmálamenn berja sér á brjóst fyrir að hafa stóraukið framlög til nýsköpunar. Allt í lagi. Það er gott að efla nýsköpun og þróun. En fókusinn í umræðunni hefur verið á sprotafyrirtæki. Í flestum öðrum löndum er fókusinn á nýsköpun í starfandi fyrirtækjum. Það er miklu ódýrara að auka verðmætasköpun og búa til ný störf í starfandi fyrirtækjum heldur en í nýjum. Hins vegar er auðvitað mikilvægt að búa líka til ný fyrirtæki. En á Íslandi er umræðan aðallega á þessa sprotahugsun. Hvað er að gerast hjá þessum fyrirtækjum í dag?

Þau eiga mörg í miklum erfiðleikum. Af hverju? Af því að peningastefnan og hagstjórnin í landinu er ónýt, vextir þeir hæstu í samkeppnislöndum okkar, gengið alltof sterkt fyrir bæði sprotafyrirtæki og önnur fyrirtæki sem stunda verðmætasköpun innanlands og þar með er starfsmannakostnaður mun hærri en í samkeppnislöndunum og svo bætist tryggingagjaldið ofan á sem er refsiskattur á fyrirtæki fyrir að ráða fólk í vinnu. Hvaða gagn er af því að dæla fullt af peningum í rannsóknir og þróunarstarfsemi og nýsköpun til að búa til ný fyrirtæki með hátækniþekkingarstörfum ef hagstjórnin er þannig að þau eiga sér vart lífsvon?“

„Við hjá VARMA erum með þróunarverkefni í gangi með Ístex sem snýr að þróun á mýkra ullarbandi úr íslenskri ull og ég bind miklar vonir við það. Ef það tekst mun það hafa í för með sér umtalsverðan ábata, bæði fyrir bændur vegna þess að þá verður ullin þeirra verðmeiri og svo mun þetta skapa okkur hugsanlega tækifæri til að fara með vörurnar okkar með öðrum hætti inn á markaðinn. Þetta er rannsóknar- og þróunarverkefni í starfandi fyrirtæki sem verður ekki mjög dýrt og mun strax skila sér. Það er munurinn. Ég hef líka starfað fyrir og tekið þátt í stofnun fjölda sprotafyrirtækja sem eru hátæknimiðuð og er að kenna nýsköpun við Verkfræðideildina í Háskólanum í Reykjavík þannig að ég er alls ekki á móti sprotafyrirtækjum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .