Að mati Greiningar Íslandsbanka er útlit fyrir að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hafi að jafnaði verið lítil á síðasta ári vegna „styrkingar krónu og rysjóttar tíðar á hlutabréfamarkaði.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri frétt greiningardeildarinnar .

Þar segir einnig: „Hlutfall erlendra eigna af heildareignum lækkaði lítillega þrátt fyrir veruleg kaup sjóðanna á erlendum fjáreignum á árinu. Góð ávöxtun árin á undan mildar þó áhrif þróunarinnar í fyrra á stöðu sjóðanna, og er raunávöxtun kerfisins undanfarin 5 ár væntanlega að jafnaði enn yfir 3,5% tryggingarfræðilegu viðmiði sjóðanna þrátt fyrir slaka ávöxtun í fyrra.“

145% af VLF

Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 3.514 milljörðum króna um áramótin samkvæmt tölum frá Seðlabankanum og samsvarar það um 145% af vergri landsframleiðslu síðasta árs. Þar af voru innlendar eiginir 2.751 milljarðar króna en erlendar eginir 764 milljónir króna í bókum sjóðanna.

„Höfðu fyrrnefndu eignirnar aukist um 201 ma. kr. á árinu en þær síðarnefndu um 29 ma. kr. Í prósentum talið jukust eignir lífeyriskerfisins um 7,0%, þar af innlendar eignir um 7,9% en erlendar eignir um 3,9%,“ er einnig tekið fram í greiningunni.

Styrking krónu hefur neikvæð áhrif

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna hafa að öllum líkindum dregið ávöxtunina niður í fyrra að mati Greiningar Íslandsbanka. „Þótt ávöxtun á erlendum hlutabréfamörkuðum hafi verið nokkur í fyrra vó styrking krónu þó að jafnaði mun þyngra í verðþróun erlendu eignanna í krónum talið. Má þar nefna að MSCI heimsvísitalan fyrir hlutabréf hækkaði um 5,3% á árinu 2016, en á sama tíma lækkaði vegið meðalgengi erlendra gjaldmiðla, eins og það endurspeglast í gengisvísitölu Seðlabankans, um 15,6% gagnvart krónu,“ er tekið fram.

Rímar það við aukningu erlendra eigna sjóðanna í krónum talið yfir síðasta ár, þrátt fyrir að heimildir þeirra til erlendra verðbréfakaupa hafi numið samtals 85 milljörðum króna á árinu.

„Innlend hlutabréf hafa líklega gefið lífeyrissjóðunum heldur takmarkaða ávöxtun á árinu 2016, enda var ávöxtun á hlutabréfamarkaði, miðað við K-90 vísitölu Greiningar Íslandsbanka, neikvæð um u.þ.b. 1% á árinu. Skuldabréfaeign sjóðanna, sem myndar u.þ.b. 55% af heildareignum þeirra, hefur þó væntanlega gefið nokkru betur af sér. Stór hluti þeirrar eignar er raunar bókaður á kaupkröfu í bókum sjóðanna, og skilar því fastri ávöxtun ár eftir ár,“ tekur greiningardeildin fram.

Óþarfi að örvænta í bili

Greining Íslandsbanka tekur þó fram að þó raunávöxtun eigna lífeyrissjóða hafi líklega verið talsvert undir 3,5% tryggingafræðilegu viðmiði í fyrra þarf þó ekki að örvænta í bili um stöðu sjóðanna, enda góð ár þar að banki.

„Samkvæmt tölum frá FME var raunávöxtun áranna 2011-2015 að jafnaði 6,2% hjá samtryggingardeildun en 5,4% hjá séreignardeildum lífeyrissjóða,“ segir í greiningunni.