Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær virðist sem lítil arðsemi sé af útleigu íbúðarhúsnæðis. Vænt ávöxtun leigusala nær ekki upp í fórnarkostnað fjármagns á Íslandi en þetta kom fram í kynningu Ásgeirs Jónssonar, deildarforseta við hagfræðideild Háskóla Íslands, á morgunverðarfundi um framtíð leigufélaga sem leigufélagið Heimavellir hélt í síðustu viku. Bennti Ásgeir einnig á að fjármagnskostnaður leigufélaga með íbúðarhúsnæði sé hærri en leigufélaga með atvinnuhúsnæði þrátt fyrir að skuldabréfaútgáfur íbúðaleigufélaga séu almennt álitin áhættuminni en útgáfur félaga með atvinnuhúsnæði þar sem almennt er öruggara að leigja heimilum en fyrirtækjum.

Ásgeir segir að 3,5% raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna og innflæðishöft hafi einnig áhrif á fjármagnskostnað. „Hinn punkturinn er svo sá að það virðist nokkuð skýrt að 3,5% viðmið lífeyrissjóðanna um raunávöxtun virðist hafa mikil áhrif á fjármagnsmarkað. Það sést fyrst í því hvernig þeir setja sjálfir vexti þar sem fastir vextir á lífeyrissjóðaláni fara aldrei undir 3,5%. Það virðist því vera sem þessi 3,5% myndi gólf fyrir útgáfu fasteignafélaganna,“ segir Ásgeir.

„Við erum núna með fjármagnskerfi þar sem lífeyrissjóðirnir taka í raun við nær öllum sparnaði almennings. Fyrir utan lífeyrissjóðina þá eru ekki margir aðrir aðilar sem eru að kaupa skuldabréf. Það eru lífeyrissjóðirnir, einhverjir fjárfestar og svo tryggingafélögin. Krafan virðist því vera föst í 3,5% á sama tíma og grunnvextir, þ.e. HFF 44, hafa verið að lækka.“

Ásgeir segir að það hjálpi heldur ekki til að innflæðishöft Seðlabankans komi í veg fyrir að erlendir aðilar geti komið inn á markaðinn. „Það virðist skýrt að innflæðishöftin eru að halda uppi langtímavaxtastigi í landinu. Og þau virðast líka halda uppi vaxtamun. Fyrst og fremst kemur þetta í veg fyrir samkeppni á fjármagnsmarkaði. Við erum með tvo aðila, annars vegar lífeyrissjóðina, sem eru að hugsa um þessi 3,5% og það setur ákveðið vaxtagólf fyrir þá, og hins vegar bankana sem eru þá í samkeppni við lífeyrissjóðina.

Það má alveg færa rök fyrir því að ekki skuli leyfa skammtíma stöðutöku á gjaldeyrismarkaði og það sé ekkert sniðugt að fá aftur aðila í vaxtamunarviðskipti. Hins vegar er Seðlabankinn að teygja þetta mun lengra þar sem höftin eru beinlínis til þess að hafa áhrif á allt vaxtarófið. Hugsunin virðist vera þannig að útlendingar séu óþolinmóðir á meðan Íslendingar séu þolinmóðir. Það er í sjálfu sér ekki rétt hugsun þar sem þú sýnir þolinmæðina með því velja hvers konar skuldabréf  þú kaupir. Ef fjárfestir kaupir fyrirtækjaskuldabréf til langs tíma á Íslandi þá er viðkomandi ekkert að fara hlaupa út úr því þar sem það er nánast enginn eftirmarkaður með þau bréf. Þeir útlendingar sem kaupa bréf á fasteignafélögin eru líklega að fara að vera hérna út líftíma bréfsins þar sem það er kostnaðarsamt fyrir þá að fara út vegna þess hve grunnur bæði fyrirtækjaskuldabréfa- og gjaldeyrismarkaðurinn er.

Það virðist vera klárt að sambland af þessu tvennu, 3,5% uppgjörskröfu lífeyrissjóðanna og innflæðishöftunum, er að halda upp vöxtum á Íslandi og er þá augljóslega að hafa áhrif á leiguverð. Þetta er því ekki eins kostnaðarlaus stefna eins og Seðlabankinn hefur viljað halda fram.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .