Hlutabréf tölvuleikjafyrirtækisins Solid Clouds voru tekin til viðskipta á First North markaðnum í dag. Hlutabréfaverð félagsins endaði daginn í 12,5 krónum á hlut, sama gengi og í hlutafjárútboði félagsins sem lauk þann 30. júní síðastliðinn .

Veltan með bréf Solid Clouds var þó af skornum skammti eða alls um 25,7 milljónir króna, þar af var ein viðskipti fyrir 10,3 milljónir. Fjöldi viðskipta með hlutabréf tölvuleikjafyrirtækisins voru 72 talsins.

Mesta veltan á First North markaðnum var með hlutabréf Play sem hækkuðu um 1,2% á öðrum viðskiptadegi flugfélagsins. Gengi Play er nú 24,5% yfir útboðsgenginu í hlutafjárútboði flugfélagsins sem lauk í síðasta mánuði.

Á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkaði Arion mesta allra félaga en gengi bankans stendur nú í 163 krónum á hlut. Hlutabréfaverð bankans hefur verið á mikilli siglingu undanfarið en Arion hefur hækkað um 72% á árinu og 220% frá því í mars á síðasta ári.

Íslandsbanki lækkaði hins vegar mest mest allra félaga í dag eða um 0,9%. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 105 krónum á hlut sem er þó 33% yfir genginu í hlutafjárútboði bankans sem lauk 15. júní.