Óhætt er að segja að fordæmalaust ástand ríki í fluggeiranum um allan heim um þessar mundir en flugfélög þurfa nú til viðbótar við mikinn samdrátt í eftirspurn vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, Covid-19, einnig að takast á við ferðabönn beggja vegna Atlantshafsins. Fjölmörg flugfélög hafa gripið til róttækra aðgerða til þess að mæta tekjutapi með því að fella niður stóran hluta af flugferðum næstu vikna og mánaða, kyrrsetja flugvélar og segja tímabundið upp stórum hluta starfsfólks.

Mörg félög munu að öllum líkindum lenda í töluverðum lausafjárvandræðum á næstu vikum og mánuðum enda er flugstarfsemi ekki svo auðveldlega sköluð niður þar sem fastur kostnaður félaganna er umtalsverður á sama tíma og útlit er fyrir að tekjur verði litlar sem engar. Í greiningu sem alþjóðasamtök flugfélaga, IATA , birtu síðastliðinn föstudag kom fram að lausafjárstaða flugfélaga um allan heim dugar í besta falli til þess að lifa af án tekna í einn til tvo mánuði ef litið er á miðgildi en greiningin var gerð með því að skoða tekjur síðustu tólf mánaða í samræmi við síðustu stöðu lausafjár.

Miðgildið er nokkuð álíkt milli heimsálfa, hæst er það í Afríku og Mið-Austurlöndum eða um tveir mánuðir á meðan það er lægst í Norður-Ameríku eða um mánuður. Í Evrópu er miðgildið svo um einn og hálfur mánuður. Þess ber að geta að töluverður munur er þó milli félaga eða allt frá nokkrum vikum upp í níu mánuði. Þá er einnig rétt að benda á að 12 mánaða tekjur gefa ekki fullkoma mynd þar sem tekjur sumra flugfélaga eru töluvert hærri yfir háönn sumarmánaðanna.

Fram kemur í greiningu IATA að vandi flugfélaganna snúi mun frekar að lausafjárvanda heldur en gjaldþolsvanda (e. solvency) sem þýðir í raun að mörg félög muni eiga meira en þau skulda en hafi ekki laust fé til staðar til þess að borga af lánum og öðrum greiðslum. Þegar að því kemur að laust fé flugfélags verður uppurðið er ljóst að næsta lausn yrði að draga á lánalínur sem félögin hafa en þar á eftir þyrfti að leita að markaðsfjármögnun eða óska eftir ríkisaðstoð.