Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, sem rekur álverið á Grundartanga, er sagt hafa átt einna stærstan þátt í því að stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafi lagt 10% verndartolla á innflutt ál í Bandaríkjunum samhliða því að lagðir voru 25% tolla á innflutt stál.

Í umfjöllun Wall Street Journal er Century Aluminum kallað „lítt þekkt“ fyrirtæki sem sannfært hafi Trump stjórnin eftir áralanga baráttu fyrir verndartollunum þrátt fyrir andstöðu álrisa á borð við Alcoa, sem rekur álverið á Reyðarfirði. Century Aluminum tókst ætlunarverk sitt að sögn WSJ með því að afla stuðnings United Steelworkers, stærsta verkalýðsfélaginu í bandarískum iðnaði, og minni fyrirtækja sem búa til íhluti úr áli.

Megnið af áli flutt inn til Bandaríkjanna

Aðeins lítill hluti áls sem nýtt er í Bandaríkjunum er framleiddur innanlands. Af 11,4 milljónum tonna af áli sem notuð voru í Bandaríkjunum á síðasta ári voru einungis 750 þúsund tonn framleidd í álverum þar í landi. 6,8 milljón tonn voru flutt inn til Bandaríkjanna og 3,9 milljón tonn voru unnin úr endurunnu áli. Vegna lágs álverðs og hækkandi raforkuverðs undanfarin ár hefur hverju álverinu í Bandaríkjunum á fætur öðru verið lokað. Tuttugu álverum hefur verið lokað í Bandaríkjunum frá aldamótum. Nú er svo komið að einu félögin sem enn reka álver í Bandaríkjunum eru Alcoa og Century Aluminum.

Útlit er fyrir að álframleiðsla í Bandaríkjunum muni aukast eitthvað næstu misserin þó Bandaríkin muni áfram að langmestu leyti þurfa að treysta á innflutning áls. Í kjölfar verndartolla Trump stjórnarinnar tilkynnti Century Aluminum að það hygðist tvöfalda framleiðslu í álveri sínu í Kentucky sem hafði verið lokað að hluta. Alcoa hafði tilkynnt áður en greint var frá tollum Trumps að það hygðist hefja framleiðslu á ný í Indiana. Þá hefur þriðja fyrirtækið, Magnitude 7 Metals, tilkynnt að það hyggist opna á ný álver í Missouri sem lokað var árið 2016.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .