Borgarráð hefur samþykkt að ráða Lóu Birnu Birgisdóttur í stöðu sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Ráðgefandi hæfnisnefnd mat Lóu Birnu Birgisdóttur hæfasta til að gegna stöðu sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar en það er nýtt svið sem tekur til starfa 1. júní næstkomandi þegar nýtt skipurit tekur gildi.

Lóa Birna er með kandídatspróf í vinnusálfræði frá Árósaháskóla, og með BA í sálfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur gegnt ábyrgðarstöðum á sviði mannauðsmála hjá Reykjavíkurborg samfellt frá árinu 2005, m.a. í 12 ár sem mannauðsstjóri á velferðarsviði og í samninganefnd borgarinnar í sjö ár. Þar áður vann hún í þrjú ár sem verkefnastjóri hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar.

Starfið var auglýst laust til umsóknar í byrjun mars 2019. Umsóknarfrestur var til og með 25. mars 2019. Tólf umsóknir bárust. Þrír umsækjendur drógu umsókn sína til baka strax eftir að umsóknarfresti lauk.