Loðnuvertíðin fór af stað með hvelli eftir að sjómannaverkfallið leystist í gærkvöldi. Hornafjarðarskipin voru fyrst á miðin enda styst fyrir þau að fara, þar sem fremsti hluti loðnugöngunnar var komin vestur að Tvískerjum úti af Öræfasveitinni. Þetta kemur fram í frétt Fiskifrétta .

„Við vorum komnir hingað um klukkan fimm í nótt,“ sagði Jóhannes Danner skipstjóri á Jónu Eðvalds SF frá Hornafirði þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans nú í morgun. „Það var heilmikið að sjá í nótt.  Beitir fékk 1.000 tonna kast og Börkur fékk ágætiskast líka. Við erum búnir að dæla 600 tonnum úr einu kasti um borð hjá okkur og erum að gefa Aðalsteini Jónssyni úr nótinni. Núna virðist loðnan hafa hlaupið upp í fjöru þannig að það er ekki mikið að sjá í augnablikinu. Við urðum svolítið varir við hval í nótt en svo hefur hann ekkert sést síðan þannig að vera kann að við höfum misst loðnuna eitthvað vestur fyrir okkur í fjörunni.“

Vestmannaeyjaskipin hafa verið að koma á miðin vestan að og urðu ekki vör við loðnu á leiðinni þannig að líklega hafa skipin í nótt verið að veiða úr fremsta hluta göngunnar sem er nú á hraðri vesturleið, að sögn Jóhannesar.

„Ég hef ekki kannað það sjálfur en ég hef heyrt að hrognahlutfall loðnunnar sé komið í 21%, þannig að það styttist óðfluga í hrognatöku. Þetta er afbragðsgóð Japansloðna sem nú er að veiðast,“ sagði Jóhannes.