Fjármálaeftirlitið leggur ekki mat á mótaðilaáhættu greiðslustofnana á borð við Kortaþjónustuna sem getur myndast ef viðskiptavinur fer í þrot að því er kemur fram í ViðskiptaMogganum í dag. Haft er eftir Jóni Þór Sturlusyni aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins að það sé ekki gert vegna þess að ekki sé litið á það fé sem kemur frá korthöfum til fyrirtækja sem fé greiðslustofnunarinnar. Heldur hafi greiðslustofnun fjármagnið einungis til vörslu.

Kortaþjónustan, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , lenti í miklu áfalli þegar breska flugfélagið Monarch fór í greiðslustöðvun og Kortaþjónustan lenti í ábyrgðum fyrir endurgreiðslur á flugfarmiðum í ferðum sem voru ekki farnar.

Að því er kemur fram í ViðskiptaMogganum hefur blaðið heimildir fyrir því að flugfélagið Monarch hafi falast eftir samskonar viðskiptum við önnur kortafyrirtæki en þau hafi ekki treyst sér til að taka sömu áhættu og Kortaþjónustan gerði þrátt fyrir að efnahagur þeirra væri margfaldur.

Kortafyrirtækin Borgun og Valitor sæta ítarlegra eftirliti af hálfu FME þar sem þau eru skilgreint sem fjármálafyrirtæki og hafa heimild til lánveitinga. Kortaþjónustan er hins vegar eina fyrirtæki landsins sem flokkast sem greiðslustofnun og starfar eingöngu sem færsluhirðir. Jón Þór segir að það sem hafi átt sér stað í tilviki Kortaþjónustunnar sé óvenjulegt og að Kortaþjónustan haldi nú lengur eftir fyrirframgreiðslum viðskiptamanna sinna en fyrir áfallið.